„Þjóðarrétturinn“ kostar núna 700 krónur

11.01.2017 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn  -  RÚV
Pylsa og kók hjá Bæjarins bestu, frægasta pylsustað landsins, kostar núna 700 krónur og hefur hækkað um hundrað krónur frá árinu 2015. Eigandi staðarins segir þetta eiga sér eðlilegar skýringar - af og frá sé að 80 ára gamall veitingastaður sé að elta eitthvert gullæði í ferðaþjónustunni.

Pylsa og kók kostaði í mars fyrir tveimur árum 600 krónur - pylsan 400 krónur og gosið 200 krónur, að því er fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins. Í byrjun þessa árs kostar hún hins vegar 450 krónur og gosið 250 krónur og „þjóðarrétturinn“ því 700 krónur.

Guðrún Björk Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins bestu, segir í samtali við fréttastofu að sér finnist 700 krónur ekkert rosalega dýrt. Verðhækkunin núna eigo sér eðlilegar skýringar. Fyrirtækið hafi tekið á sig launahækkanir starfsfólks á síðasta ári og hafi svo þurft að mæta hækkun frá öllum sínum birgjum.

Guðrún Björk segir af og frá að fyrirtækið sé að eltast við pyngjur ferðamanna. 80 ára gamalt fyrirtæki þurfi ekki á slíku að halda. „Við höfum alltaf haft gæðavöru og borgað okkar starfsfólki góð laun.“ 

Bæjarins bestu er einn vinsælasti áningastaður erlendra ferðamanna sem hingað kom til landsins enda heimsfrægur eftir að Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk sér þar pylsu. Ekki minnkuðu heldur vinsældirnar þegar raunveruleikastjarnan Kim Kardashian fékk sér heldur óvenjulega útgáfu af pylsunni - bara brauð og tómatsósu.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV