Þjálfari Udinese: „Emil er klár í að spila“

02.02.2016 - 11:48
epa04607841 Verona's midfielder Emil Hallfredsson in action during the Italian Serie A soccer match between Hellas Verona FC and Torino FC at Bentegodi Stadium in Verona, 07 February 2015.  EPA/VENEZIA FILIPPO
Emil Hallfreðsson spilar sinn fyrsta leik fyrir Udinese annað kvöld. Hann verður í treyju númer 55 hjá nýja félaginu.  Mynd: EPA  -  ANSA
Líklegt verður að teljast að Emil Hallfreðsson verði í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik með Udinese. Hafnfirðingurinn skrifaði undir tveggja ára samning við ítalska úrvalsdeildarfélagið um helgina eftir fimm ár í herbúðum Verona.

Udinese, sem er í 15. sæti Seríu-A, sækir Empoli, sem er í 9. sæti, heim annað kvöld. Á Twitter-síðu félagsins er haft eftir Stefano Colantuono, knattspyrnustjóra Udinese, að Emil sé klár í slaginn. 

„Hallfreðsson er tilbúinn í að spila og skilur nú þegar leikkerfi okkar. Við munum spila með tvo framherja,“ sagði Colantuono sem segist einnig vonast til að hinn 38 ára fyrirliði Antonio Di Natale geti byrjað en hann hefur glímt við meiðsi. 

Emil, sem var fastamaður í íslenska landsliðinu í undankeppni EM, spilar í treyju númer 55 hjá Udinese. Hann var númer 10 hjá Verona sem situr í 20. og neðsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. 

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður