Þjálfari Frakka þekkti enga - „dóttir?“

17.07.2017 - 17:57
Olivier Echouafni, landsliðsþjálfari Frakka, þekkir ekkert nafn leikmanns í íslenska landsliðinu en Ísland og Frakkland mætast í fyrsta leik liðanna í C-riðli á EM kvenna í knattspyrnu í Tilburg í Hollandi annað kvöld.

Echouafni sem lék á sínum tíma sem atvinnumaður í fótbolta, meðal annars með Marseille, OGC Nice og Stade Rennais, tók við franska liðinu á síðasta ári og stýrir því þá í fyrsta skipti á stórmóti. 

„Dóttir?“

Í viðtali við RÚV í dag var hann spurður að því hvort hann þekkti eitthvert nafn í íslenska liðinu en svar hans var einfalt. 

„Dóttir?“

Á fjölmiðlafundi fyrr í dag talaði Echouafni þó um að íslenska liðið væri mjög verðugur andstæðingur og að leikmenn liðsins væru skipulagðir og líkamlega sterkir.

Frakkland hefur aldrei unnið stórmót en liðið situr í dag í 3. sæti heimslistans í fótbolta. Á þeim lista situr Ísland í 19. sæti. Franska liðið vann alla leiki sína í undankeppni EM fyrir mótið og fékk ekki á sig mark. 

Leikur Íslands og Frakklands verður sýndur beint á RÚV og lýst á Rás 2. Upphitun fyrir leikinn hefst á RÚV klukkan 18:15 annað kvöld. 

Mynd með færslu
Haukur Harðarson
íþróttafréttamaður