„Þjálfaramál til skoðunar eins og allt annað“

20.01.2016 - 09:00
Mynd með færslu
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ.  Mynd:  -  RÚV
„Árangurinn er auðvitað mikil vonbrigði. Það var ekki leikurinn í gær sem sendir okkur út af mótinu, því Króatar voru númeri of stórir. Við horfum meira á Hvítrússa leikinn sem stóru mistökin okkar í mótinu,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ þegar RÚV ræddi við hann í morgun. Ísland féll úr leik í riðlakeppni EM í Póllandi í gærkvöld eins og kunnugt er eftir tap gegn Króatíu í lokaumferð riðilsins.

„Við munum að sjálfsögðu bara fara yfir öll okkar mál. Það sem við þurfum auðvitað að horfa í núna er að styrkleikar liðanna í Evrópu eru að breytast. Við þurfum að horfa á það til lengri tíma og byggja okkar lið upp til framtíðar. En við erum ekkert byrjaðir að skoða það hvað við gerum núna. Við eigum bara eftir að setjast niður og ræða það og láta rykið setjast áður,“ sagði Guðmundur um hvort einhverjar breytingar verði í kringum landsliðið eftir þetta mót.

Þarf að skoða stöðuna almennt

Aron Kristjánsson sem stýrt hefur íslenska landsliðinu frá því haustið 2012 gerði nýjan samning við HSÍ í sumar sem gildir til ársins 2017. Spurður hvort einhverjar breytingar verði á því í ljósi þess að Ísland féll úr leik strax í riðlakeppni EM og draumur liðsins um sæti á Ólympíuleikunum í sumar sé úr sögunni, sagði Guðmundur þau mál ekkert hafa verið rædd ennþá, enda menn rétt að ná áttum eftir úrslitin í gærkvöld. 

„Ég hef ekkert myndað mér neina skoðun á því núna. Nú þurfum við bara að fara yfir árangurinn á þessu móti og stöðuna almennt - á leikmönnum og annað og horfa til framtíðar með það. Að sjálfsögðu eru þjálfaramálin til skoðunar eins og allt annað,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ við RÚV í morgun.