Þingnefnd tekur söluna á Borgun fyrir

21.01.2016 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun verður tekin fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Yfirtaka Visa Inc. á Visa Europe hefur staðið til í minnst átta ár.

Landsbankinn, sem seldi 31% hlut í kortafyrirtækinu Borgun fyrir 2,2 milljarða króna sumarið 2014, fær ekki hlut í hagnaði fyrirtækisins vegna yfirtöku Visa inc. á Visa í Evrópu. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna af viðskiptunum er talinn vera vel á annan tug milljarða króna. Landsbankinn, sem er að 98 prósentum í eigu íslenska ríkisins, seldi hlut sinn í Borgun, eignarhaldsfélaginu Borgun slf. í lokuðu söluferli sem var harðlega gagnrýnt.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vill að Alþingi og Fjármálaeftirlitið láti til sín taka vegna málsins, sem og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem hann á sjálfur sæti í. Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir málið alvarlegt.

„Hér er vissulega um stórt mál að ræða. Það hefur ekki verið rætt á vettvangi nefndarinnar en ef nefndarmenn óska eftir því að svo verði gert munum við gera það. Fyrsta skref væri þá að ræða hvort það eigi erindi á þessum vettvangi eða hvort það komi til skoðunar annars staðar. Þetta hefur ekki verið gert en ljóst að við munum ræða það á þessum forsendum. Ef formaður Samfylkingarinnar sem jafnframt á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd óskar eftir því, þá munum við gera það,“ segir Ögmundur. 

Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti fundur nefndarinnar verður.

„Mér finnst þetta að sjálfsögðu vera alvarlegt mál og fullkomlega eðlilegt að menn beini sjónum sínum að því. En ég vil ekki segja meira um málið á þessu stigi,“ segir Ögmundur.

Tjá sig ekki

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu getur stofnunin ekki tjáð sig um hvort málið er til skoðunar. Það sé hins vegar hlutverk eftirlitsins að fylgjast með starfsemi eftirlitsskyldra aðila, þar með talið viðskiptabankanna.

Í frétt á vef Visa í Evrópu frá því í nóvember kemur fram að strax árið 2007 hafi Visa Inc. gert söluréttarsamning við Visa í Evrópu. Yrði hann virkjaður myndi Visa inc. taka yfir Visa í Evrópu á verði sem reiknað yrði út eftir ákveðinni formúlu. Miðað við þetta hefur verið ljóst í langan tíma að það gæti farið svo að talsverðir fjármunir rynnu til Valitor og Borgunar vegna yfirtökunnar.

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, vildi ekki veita fréttastofu viðtal þegar eftir því var leitað í morgun, né heldur Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins. Þá náðist ekki í Tryggva Pálsson, formann bankaráðs Landsbankans