„Þetta þarf ekki að vera svona brútal“

12.01.2016 - 17:21
Eyjaskeggjar skera gúmmíbátana sem fólkið skilur eftir í flæðarmálinu niður í búta. Þeir nota þá sem efnivið í hænsnabúr. Utanborðsmótorum má oft koma í verð. Skátarnir sjá um að hreinsa strendurnar sem sumar hafa tekið á sig appelsínugulan lit. Þær eru þaktar björgunarvestum. Þeir safna saman vestunum, binda þau í búnt og koma þeim um borð í næsta öskubíl.

Appelsínugulur minnisvarði 

Á sorphaugum eyjarinnar, uppi í fjöllunum, úir og grúir af þessum vestum. Þau eru minnisvarði um alla þá flóttamenn sem síðastliðið ár hafa komið við á eyjunni Lesbos á leið sinni til Vestur-Evrópu.

Á síðasta ári komu 800 þúsund flóttamenn sjóleiðina frá Tyrklandi til Grikklands, þar af kom hálf milljón að landi á Lesbos, eyju í Norður-Eyjahafi. Þúsundir létu lífið á þessari sömu leið.

Á eyjunni búa 90 þúsund manns. Hún er ferðamannaparadís á sumrin en nú er þar vetur. Úfnar öldur skella á ströndinni.

Þú sérð ekki neitt

Linda Low, samskiptafulltrúi Rauða krossins í Evrópu, segir í samtali við Spegilinn að upp á síðkastið hafi um 3000 flóttamenn komið til Lesbos á degi hverjum. Þegar mest var í fyrra komu 8000 á dag. Það er áhættusamara að ferðast um vetur en ódýrara, smyglarar bjóða sérstök tilboð og margir láta til leiðast. „Þegar maður stendur þarna á ströndinni þá er svo rosalega dimmt, þú sérð ekki neitt. Þú veist bara að sjórinn er þarna ert með vasaljós og sérð öldurnar næst þér og svo heyrðirðu bara í bátunum nálgast, þú sérð ekkert,“ segir Díana Karlsdóttir, hljóðmaður sem fór til eyjarinnar í október og starfaði þar undir merkjum norsku hjálparsamtakanna Dråpen i Havet. „Ég var aðallega að hjálpa flóttafólki sem kemur að ströndinni á bátum, það er ringlað og sjóveikt og allt mögulegt. Það þarf að vita hvert það á að fara, í hvaða átt. Þetta er bara strönd, það er ekkert þarna sem útskýrir neitt fyrir þeim þannig að þau vita voða lítið þegar þau koma í land.“

Díana dvaldi á Lesbos í viku. Hún vonaðist fyrst til þess að geta fengið verkefni við að flokka fatnað en þörfin var mikil og það leið því ekki á löngu þar til hún var komin í fremstu víglínu. Síðasta daginn sem hún dvaldi á eynni ákvað hún að hljóðrita þá atburði sem hún varð vitni að. Hlýða má á upptökuna og viðtalið í spilaranum hér að ofan. 

Þóttist vita hvað hún var að gera

Díana segist sannfærð um að það að hægt væri að taka öðruvísi á vandanum. Til þess þurfi fyrst og fremst að uppræta hræðslu fólks við útlendinga og fá það til að leggja sitt af mörkum. „Þá væri hægt að gera þetta svo miklu einfaldara, ekki endilega að taka alla heim til sín en þessi ferð sem þau fara í er svo ömurleg og ógeðsleg og það þarf ekki að vera þannig. Þetta þarf ekki að vera svona brútal og hugsunarlaust allt saman.“

Margt dreif á daga Díönu þessa viku. Áhrifamest var þegar hún tók á móti barni á ströndinni. „Ég var hrædd en reyndi samt að vera róleg til að hræða hana ekki, sem var að fæða, þóttist bara vita hvað ég var að gera þannig að hún myndi ekki sjá að ég væri í einhverju panikki.“

 

Það voru 50 manns um borð í bátnum. Tvær ungar stúlkur höfðu troðist undir. Vinkona Díönu veitti þeim aðhlynningu en hún sjálf fór til konunnar, þar sem hún var með símanúmer hjá lækni. „Ég var búin að tala við lækninn fyrsta daginn og hún sagði mér að oft þegar menn sæu óléttar konur sem liði illa héldu þeir að þær væru komnar að fæðingu þannig að hún sagði mér að athuga málið, ég gerði það og sá að hausinn var bara að fara að koma eftir smá.“

Minni ringulreið en áður

 

Samkvæmt vefsíðu breska ríkisútvarpsins, BBC, ríkir ekki jafnmikil ringulreið á Lesbos og áður. Grikkir hafa loksins gefið sig og leyft Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins að aðstoða við að taka fingraför af fólki og skanna skilríki þess.

Í frétt Guardian um stöðuna kemur fram að yfirvöld hafi áhyggjur af miklum fjölda erlendra sjálfboðaliða á eyjunni.

Áhyggjur af sjálfboðaliðum

Á Lesbos starfar nú fjöldi sjálfboðaliða hvaðanæva að úr heiminum. Þeir taka á móti flóttafólkinu í flæðarmálinu, færa því mat og vatn, útvega því þurr föt og teppi og vísa því veginn að næstu flóttamannabúðum. Samkvæmt Guardian eru á níunda tug sjálfboðasamtaka starfandi á eyjunni en einungis 30 hafa skráð sig hjá yfirvöldum. Heimamenn eru sumir áhyggjufullir og óttast að sjálfboðaliðarnir geri illt verra, þeir samhæfi aðgerðir sínar ekki nægilega vel, veiti flóttamönnum rangar upplýsingar og taki ekki nægilegt tillit til þarfa nærsamfélagsins. Spyros Galinos, bæjarstjóri á Lesbos, segist þakklátur sjálfboðaliðum fyrir hjálpina. Sérstaklega þeim sem fyrstir svöruðu kalli yfirvalda á eyjunni. Nýlega hafi hins vegar mikið borið á því að sjálfboðaliðasamtök starfi algerlega sjálfstætt og ráðfæri sig ekkert við yfirvöld á svæðinu. Slíkt hleypi illu blóði í heimamenn, þeir eigi erfitt með að treysta þessum samtökum. Annar ráðamaður á eyjunni segir að sum samtakanna starfi náið með yfirvöldum, önnur geri bara það sem þeim sýnist.

Trúboðar og sjálfboðaliðatúristar

Díana segist ekki hafa orðið vör við skipulagt björgunarstarf á Lesbos. Það er enginn sem stýrir aðgerðum á ströndinni, hver gerir sitt, sumir eru reyndir og geta ráðlagt öðrum en þeir hafa enga stjórn eða yfirsýn. Díana segir eitthvað um sjálfboðaliðatúrisma, fólk sem komi í þeim tilgangi að taka af sér myndir með gegnblautum börnum. Þá segist hún hafa orðið vör við æsta trúboða sem vindi sér upp að flóttafólkinu þar sem það stendur hrakið og kalt á ströndinni og les upp úr trúarritum fyrir það. Það sé enginn sem getur komið í veg fyrir svoleiðis, tekið málin í sínar hendur og stjakað frá þeim sem ekki eru komnir til að hjálpa.

Rauði krossinn bannaður

Hún segir að Rauði krossinn og önnur skipulögð hjálparsamtök hafi enga viðveru haft á ströndinni þar sem stjórnvöld hafi bannað það. Yfirvöld telji að tilhugsunin um einkennisklædda móttökusveit í flæðarmálinu leiði til þess að fleiri leggi upp í hættuför yfir hafið. Flóttafólkið er því í höndum íbúa á Lesbos og ferðamanna sem koma í þeim erindagjörðum að bjarga því. Díana er gagnrýnin á Rauða krossinn. Hún segist einu sinni hafa séð starfsmenn hans koma á ströndina og aðstoða við móttöku flóttafólks. Þeir hafi verið myndaðir í bak og fyrir og myndirnar ratað í heimspressuna.

Rauði krossinn byggir hjálparstarf sitt á samþykki og samstarfi við stjórnvöld í þeim löndum þar sem hann starfar. Samkvæmt Birni Teitssyni, upplýsingafulltrúa Rauða krossins á Íslandi, hafa tengsl Rauða krossins við stjórnvöld í Grikklandi verið erfið. Strandlengjan er að stórum hluta í einkaeigu og landeigendur sem margir eiga allt sitt undir ferðaþjónustu kæra sig ekki um að þær verði lagðar undir björgunarstörf. Stjórnvöld gæti hagsmuna þeirra og hagsmuna eyjarinnar í heild enda ferðaþjónusta aðalatvinnuvegurinn.

Danski Rauði krossinn sendi nýlega frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að yfirvöld á Grikklandi hafi hafnað beiðni samtakanna um að koma upp hreinlætisaðstöðu og búðum á eyjunni. Þá kemur fram að grísku landsdeildina skorti fé og bolmagn til að bregðast við vandanum. Því er haldið fram að áfram verði reynt að semja við stjórnvöld um að samtökin fái aukið svigrúm til starfa. Þá kemur fram að Rauði krossinn nái ekki að hjálpa öllum á Lesbos, hann sé ekki með viðveru alls staðar. Það þýði þó ekki að hann sé ekki til staðar.

 

Kære vennerDet her er ikke en helt almindelig opdatering. Så vi har brug for jeres hjælp og håber, at I vil dele den...

Posted by Røde Kors on 5. nóvember 2015

 

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi