„Þetta skyldi enginn fá að vita“

18.03.2017 - 15:09
„Það voru mín fyrstu viðbrögð að þetta skyldi enginn fá að vita. Og svo að hún skyldi aldrei fara á Klepp,“ segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, um það þegar eiginkona hans greindist með geðklofa.

Sigrún Finnbogadóttir veiktist af geðklofa aðeins 25 ára gömul, skömmu eftir fæðingu yngstu dóttur þeirra hjóna, en sjúkdómurinn átti eftir að fylgja þeim næstu áratugina. „Hún var náttúrulega mjög alvarlega geðveik. Hennar geðveiki var í upphafi skilgreind sem skitzófrenía (geðklofi), en smátt og smátt þá breyttist sú sjúkdómsgreining í geðhvarfasýki.“

Styrmir segir að sé hafi tekist að standa við það síðara sem hann ætlaði sér. „Sigrún fór aldrei á Klepp, vegna þess að geðdeild Borgarspítalans opnaði þá um vorið.“ Hann hafi hins vegar áttað sig fljótlega á því að það væri ekki hægt að þegja um þennan sjúkdóm. „Ég byrjaði á því að svara spurningum þegar ég var spurður, en síðan fór ég smátt og smátt að tala opnara um þetta.“

Jón Ársæll ræðir við Styrmi Gunnarsson í lokaþætti af Paradísarheimt á sunnudagskvöldið klukkan 20:15. Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr þættinum.