„Þetta léttir okkur ekki leikinn“

02.02.2016 - 11:18
Kálfur í girðingu með öðrum kúm
 Mynd: Ryan McGuire  -  Gratisography
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, segir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins frá því í gær, um að innflutningsbann á fersku ófrosnu kjöti til Íslands standist ekki ákvæði EES-samningsins, vera vonbrigði fyrir greinina.

„Þetta eru auðvitað ákveðin vonbrigði fyrir okkur, en við höfum lagt á það áherslu að ekki sé flutt inn ferskt kjöt meðal annars vegna sjúkdómahættu,“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu. „Þetta stig sem þetta mál er nú komið á veldur okkur nokkrum áhyggjum.“

Samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins ber aðildarríkjum EES-samningsins að leyfa innflutning á fersku kjöti, hafi það staðist heilbrigðiseftirlit í upprunalandinu. Þá sé ekki heimilt að gera þá kröfu að kjötvörurnar séu frystar, eins og íslensk stjórnvöld hafa krafist.

Mun hafa áhrif á samkeppnisstöðuna

Formaður Landssambands kúabænda á ekki von á að sambandið eitt og sér látI málið til sín taka.  Það verði á forræði Bændasamtaka Íslands, enda þveri málið hagsmuni íslensku kjötbúagreinanna. Hann vill ekki fjölyrða um áhrifin fyrir greinina, verði álit EFTA-dómstólsins staðfest fyrir íslenskum dómstólum.

„Markaðslega hefur tollverndin skipt okkur mesta máli, en hún er meginþáttur þess að verja okkur gegn innflæði kjöts sem er framleitt við mismunandi aðstæður,“ segir Sigurður. „Verði þetta niðurstaðan mun hún auðvelda að einhverju leyti innflutning, sem ég geri nú ráð fyrir að muni hafa áhrif á samkeppnisstöðu okkar á innlendum markaði.“

Eins og kunnugt er hafa íslenskir nautgripabændur ekki náð að anna eftirspurn á innlendum markaði eftir nautakjöti. „Það hefur þýtt að tollum hefur ekki verið beitt að fullu, en við höfum haft þann metnað til bæði fyrir okkar hönd og íslensks markaðar að anna eftirspurn eftir úrvalsnautakjöti. Þetta léttir okkur ekki leikinn.“

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV