„Þetta herðir mann bara“

02.02.2016 - 18:28
Á Reyðarfirði er haldið eitt elsta þorrablót landsins. Þorrablótið sem haldið var á bóndadegi, þann 22. janúar, var númer 99 í röðinni. Annálar eru fastur liður á flestum þorrablótum og þegar grannt er skoðað er þetta afar sérstakt fyrirbæri, því þarna er beinlínis gefið skotleyfi á allt og alla og þrátt fyrir allt gengur oftast nær enginn út og oftast nær endar kvöldið ekki með slagsmálum.

Því meira sem við veltum þessu fyrirbæri fyrir okkur þeim mun flóknara verður það. Í svona tilvikum er oft gott, og kannski það eina skynsamlega í stöðunni, að tala við skáld. Umsjónarmaður Sagna af landi leitaði til Ingunnar Snædal, ljóðskálds úr Jökuldal. Þar í sveit hafa menn blótað þorra mun lengur en elstu menn muna. Hann sendi henni bréf og bað hana um að leggja mat á þetta.

Hún svaraði, tilvitnun hefst:

„Þorrablótin eru alveg ómissandi hluti af sveitalífinu. Þar kemur fólk saman og leggur á sig mikla vinnu til að skemmta nágrönnum sínum og vinum. Einu sinni voru blót á Jökuldal, nú halda Jökuldælingar og Hlíðarmenn sameiginleg blót. Innihaldið hefur þó ekkert breyst, það þarf að vera nógur matur, hresst ball, og svo skal gert sem allra mest grín að náunganum, allra helst ef fólk hefur lent í einhverjum hlálegum hremmingum. Ef þú hefur dottið í það og gerst fjölþreifin við aðra en maka þinn, verið gripinn með allt á hælunum í bókstaflegri merkingu, eða þú misstir prófið, konan fór frá þér, þú varðst brjálaður í smalamennskum (sem er árleg útrás fyrir suma skaphunda í bændastétt), eða fyrirtækið þitt fór á hausinn með látum – þetta er allt fyndið í góðum leikþætti eða söngtexta.

Það er geysilega mikil vinna lögð í skemmtiatriðin, talað mál, sungið og leikatriði, og svo er reynt að dansa á línunni, vera ósvífin án þess að vera dónaleg. Þeir sem þekkja minna til súpa oft hveljur yfir því hversu nærri fólki er gengið, en það er hluti af öllu saman að geta tekið gríninu og borið sig vel. Þetta herðir mann bara.“

Við erum greinilega að tala um mjög þroskaða annálahefð og með þetta veganesti fórum við í íþróttahúsið á Reyðarfirði og hittum annálaritarana Ragnar Sigurðsson og Jóhann Sæberg.

En fyrst hittum við formann þorrablótsnefndar, Ingunni Karítas Indriðadóttur, sem sagði okkur frá því hvernig svona skemmtun verður til en allir Reyðarfirðingar virðast sammála um að þetta sé helsti menningarviðburður ársins og ef til vill sá mikilvægasti líka því í fáum bæjum hefur fjölgað jafn mikið og á Reyðarfirði síðustu ár með tilkomu álvers og öllu sem því fylgir. Það tekur tíma að búa til bæjarbrag aftur og blótið er eitt helsta verkfærið til þess arna. Staður og stund þar sem fólk skemmtir sér saman.

Viðtalið var tekið á mánudegi, fimm dögum fyrir blótið, og undirbúningur var kominn á fullt. 

 

Mynd með færslu
Jón Knútur Ásmundsson
dagskrárgerðarmaður
Sögur af landi
Þessi þáttur er í hlaðvarpi