„Þetta eru ekki lítilvæg brot“

13.09.2017 - 09:39
Leyndarhyggja í kringum uppreist æru kynferðisbrotamannsins Roberts Downey, áður Róberts Árna Hreiðarssonar, er með öllu óskiljanleg, að mati Bergs Þór Ingólfssonar, föður stúlku sem Robert braut gegn. Gögn um málið voru gerð opinber í gær.

„Mér finnst þetta styðja það sem við höfum verið að segja, að þetta sé stórundarlegt. Þetta ferli er ótrúlegt, að einhverjir vinir geti vottað upp á það að hann sé stórkostlegur og með geislabaug og að það sé hluti af ferlinu. Það styrkir það sem við höfum verið að segja um það hvernig þetta ferli á sér stað,“ segir Bergur Þór. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann kveðst vona að málið verði til þess að stjórnkerfið verði opnað og almenningur fái að vita hvernig mál eru unnin.

Telur „samtryggingu“ ganga langt

Þrír vinir Roberts Downey skrifuðu meðmælabréfin sem skilað var til stjórnvalda þegar hann sótti um uppreist æru eftir að hafa hlotið þriggja ára dóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum. „Það sem er manni efst í huga er einhver samtrygging og hvað hún gengur langt,“ segir hann. „Það er eins og þeim finnist brotin lítilvæg þegar þeir skrifa þessi bréf,“ segir Bergur og leggur áherslu á að það sé mat hans að brotið séu ekki lítilvæg. „Bæði lögmaður Roberts og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar tala um þetta eins og þetta sé, ég veit ekki hvað. Og bara svo að það sé á hreinu þá eru þetta ekki lítilvæg og smá brot.“

„Þetta varðar okkur öll“

Bergur bendir á að áður hafi verið sagt að upplýsingar í gögnum málsins væru mjög viðkvæmar, til dæmis að þar væru heilsufarsupplýsingar en að annað hafi komið á daginn. „Ég bara skil ekki að þetta hafi átt að fara leynt, líkt og það varði þjóðarhag að þessir menn skrifuðu undir eitthvað sem varð að því að barnaníðingur fékk aftur lögmannsréttindi sín. Þetta varðar okkur öll.“

Forsetinn tók undir sjónarmið fjölskyldunnar

Hann segir enn ýmsum spurningum ósvarað í málinu en að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hafi tekið undir sjónarmið fjölskyldunnar um lög um uppreist æru í ræðu við setningu Alþingis í gær. „Forsetinn tók undir það sem við höfum verið að segja og gefur tilefni til að vænta að breytingar verði á þessu. Við höfum verið að gagnrýna brotalamir í lögunum og mér sýnist það vera viðurkennt bæði af alþingismönnum og ráðherra að það séu brotalamir og þau séu barn síns tíma og að þessu þurfi að kippa í liðinn. Upplýsingalög þurfa líka að vera opin og það þarf að treysta okkur fyrir því hvað er verið að gera inni í ráðuneytum.“ 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.