„Þetta er algjörlega fordæmalaust“

18.05.2017 - 12:43
„Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er án nokkurra fordæma: ruglið, skipulagsleysið, stefnuleysið í nýrri stjórn Bandaríkjanna undir forystu Donalds Trump,“ sagði Bogi Ágústsson á Morgunvaktinni. Þar voru nýjustu uppákomur í Hvíta húsinu ræddar og það hversu veikt hann stendur. Trump var illa undir starfið búið og gengur illa að fá til sín gott fólk.

„Það er í rauninni ekki boðlegt fyrir heimsbyggðina, Bandaríkjamenn – fyrir alla - að forseti Bandaríkjanna viti ekkert hvað hann á að gera,“ sagði Bogi. Háskalegt væri að valdamesti maður heims starfaði með þeim hætti sem Trump gerir. Bogi rakti þráð atburða síðustu daga, hvernig fullyrðingar Trumps stönguðust á við það sem starfslið hans héldi fram. Staðan er orðin sú að Repúblikanar á þingi væru orðnir mjög órólegir.

Á Morgunvaktinni var líka rætt um hörmungarnar í Venesúela, sem versna dag frá degi, og hættuna á því að borgarastríð brjótist út. Þá var minnt á forsetakosningarnar sem fram fara í Íran á morgun. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi