Mynd með færslu
24.03.2017 - 08:26.Arnar Eggert Thoroddsen.Poppland
Alvia Islandia kom af krafti inn í íslensku hipphoppsenuna á síðasta ári með plötu sinni Bubblegum Bitch. Listakonan er dulúðug, ögrandi, flippuð og furðuleg en fyrst og síðast vel svöl á því. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.  

Ókei, ég er eiginlega pínu smeykur við Alviu Islandiu. Ég myndi reyna að koma mér undan því að taka viðtal við hana væri ég starfandi blaðamaður. Það er eitthvað ógnandi við hana, eitthvað „alvöru“. Athugið, þessar opnunarsetningar eru ætlaðar sem hrós. Eins og illa systir hennar Steinunnar Eldflaugar starir hún á mig af þessum myndum sem ég sé eftir einfalda myndaleit á Google. Og á þeim öllum er hún helsvöl. Töff og stíliseruð, brosir ekki en staran er slík að hún borar gat á ennið á þér. Eftir að hún er búin að borða nokkra nagla í morgunmat.

Súrt og kassalaga

Já, Alvia Islandia er með útlitið og ímyndina með sér. En hvað með tónlistina? Hún er ekkert minna aðlaðandi en stíllinn þar er, eins og hjá flytjandanum, ögrandi bæði og flippaður. Tónlistin er í senn furðuleg og dulúðug og á meira skylt við listrænt neðanjarðarrapp CYBER is CRAP en beinskeytt og feminískt rapp Reykjavíkurdætra. Framsetningin er nánast barnsleg og „næf“ og spilað er inn á mörk sakleysis og einhvers úthugsaðra. Textar eru tælandi, stundum klúrir og Alvia Islandia daðrar við okkur. „Ég vara þig við,“ segir hún í titil- og opnunarlaginu. „Ég er Bubblegum Bitch“. Tónlistin er gróf og kassalaga en flæðir líka áfram eins og hljómbundið sýrubað. Já, það er snúið að lýsa þessu!

Önnur lög eru eftir þessu, það er verið að nikka til „trap“-geirans vinsæla en um leið er heillandi heimabruggsára yfir þessu öllu saman. Í „Pornstar“ er hún fíkill, hún setur sig í stellingar og talað er um „spank“, rassa og fleira. Rappið er svalt og kæruleysislegt og henni er eitthvað svo andskotans sama um allt að það er yndislegt. Alvöru töffheit. Og þó hún sé „flæktari en cassette“, eins og segir í „Mjaw“ er hún „gyðja eins og Bassett“. Hvað getur maður sagt?

Mikilvægt

Bubblegum Bitch er mikilvæg plata fyrir þann vaxtarbrodd sem maður er að sjá í kvendrifnu og alíslensku hipphoppi. Það er heilnæmur „kýlum á þetta“ andi yfir plötunni og það sem meira er, Alviu gæti ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst. Til eftirbreytni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Gamlir nýbylgjuhundar gelta af krafti

Tónlist

Þeir fiska sem róa

Tónlist

Sextíu ár af ljúfum söng

Tónlist

Í uppgjöfinni felst mesti sigurinn