The Revenant hlaut þrenn verðlaun

11.01.2016 - 04:53
epa05096389 Leonardo DiCaprio arrives for the 73rd Annual Golden Globe Awards at the Beverly Hilton Hotel in Beverly Hills, California, USA, 10 January 2016.  EPA/PAUL BUCK
 Mynd: EPA
Kvikmyndin The Revenant kom, sá og sigraði á Golden Globe sjónvarps- og kvikmyndaverðlaunahátíðinni í Los Angeles í nótt. Hún hlaut þrenn verðlaun, þar á meðal sem besta kvikmyndin í flokki dramamynda. The Martian þótti best í flokki gaman- og söngvamynda.

Leonardo DiCaprio þótti sýna besta frammistöðu leikara í dramamynd fyrir hlutverk sitt í The Revenant og leikstjórinn Alejandro Inaritu hlaut verðlaun fyrir leikstjórn myndarinnar. DiCaprio notaði það stutta tækifæri sem hann hafði þegar hann flutti sigurræðuna til þess að tala fyrir málefnum innfæddra Bandaríkjamanna.

Brie Larson hreppti gullhnött fyrir aðalhlutverkið í dramamyndinni Room en hlutskörpust leikkvenna í flokki gaman- og söngvamynda var Jennifer Lawrence fyrir hlutverk sitt í Joy. Matt Damon var valinn besti aðalleikarinn í gaman- og söngvamyndum fyrir kvikmyndina The Martian.

Sylvester Stallone var valinn besti leikarinn í aukahlutverki fyrir að túlka Rocky í sjöunda sinn, nú í kvikmyndinni Creed. Í flokki leikkvenna fékk Kate Winslet verðlaun fyrir frammistöðu sína í Steve Jobs.

Denzel Washington hlaut Cecil B. DeMille verðlaunin fyrir framlag sitt til kvikmynda. Hann átti í nokkrum vandræðum með ræðuna sína, fyrst fann hann ekki blaðið með ræðunni, svo sá hann ekkert á blaðið því hann var ekki með gleraugun sín.

Verðlaunahafar kvöldsins voru eftirfarandi:
Dramamynd: The Revenant 

Leikari í aðalhlutverki dramamyndar: Leonardo DiCaprio - The Revenant

Leikkona í aðalhlutverki dramamyndar: Brie Larson - Room
Gaman- eða söngvamynd: The Martian
Leikari í gaman- eða söngvamynd: Matt Damon - The Martian

Leikkona í gaman- eða söngvamynd: Jennifer Lawrence - Joy
Leikstjóri kvikmyndar: Alejandro Inarritu - The Revenant
Kvikmyndahandrit: Aaron Sorkin fyrir Steve Jobs
Leikari í aukahlutverki kvikmyndar: Sylvester Stallone - Creed
Leikkona í aukahlutverki kvikmyndar: Kate Winslet - Steve Jobs
Kvikmyndatónlist: Ennio Morricone fyrir The Hateful Eight

Lag í kvikmynd: Writings on the Wall úr Spectre

Teiknimynd: Inside Out
Kvikmynd á erlendri tungu: Saul fia frá Ungverjalandi
Sjónvarpsþáttaröð - drama: Mr. Robot
Leikkona í sjónvarpsþáttaröð - drama: Taraji Henson - Empire
Leikari í sjónvarpsþáttaröð - drama: Jon Hamm - Mad Men
Sjónvarpsþáttaröð - gaman/söngur: Mozart in the Jungle
Leikkona í sjónvarpsþáttaröð - gaman/söngur: Rachel Bloom - Crazy Ex-Girlfriend
Leikari í sjónvarpsþáttaröð - gaman/söngur: Gael Garcia Bernal - Mozart in the Jungle
Stutt sjónvarpsþáttaröð eða sjónvarpsmynd: Wolf Hall
Leikkona í stuttri þáttaröð eða sjónvarpsmynd: Lady Gaga - American Horror Story
Leikari í stuttri sjónvarpsþáttaröð eða sjónvarpsmynd: Oscar Isaac - Show Me a Hero
Leikari í aukahlutverki sjónvarpsþáttaraðar: Christian Slater - Mr. Robot
Leikkona í aukahlutverki sjónvarpsþáttaraðar: Maura Tierney - The Affair

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV