Þarf tvo flugvelli á suðvesturhorninu

11.09.2017 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Reykjavíkurflugvöllur uppfyllir hlutverk sitt sem alhliða öryggisflugvöllur afar vel og flugvöllur í Hvassahrauni er eini hugsanlegi annar kostur fyrir flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þetta er meðal niðurstaðna í skýrslu sem Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri, vann fyrir samgönguráðherra og kynnti í dag.

Í skýrslunni segir jafnframt að öryggi þjóðfélagsins og flugöryggi geri það að verkum að tveir flugvellir verði að vera á suðvesturlandi. Því þurfi að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar á meðan nýjum flugvelli hefur ekki verið fundinn staður og hann byggður. Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, hefur skipað nefnd til að finna ásættanlega lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hreinn Loftsson, lögmaður, verður formaður hennar og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, á einnig sæti í henni.

Aðstæður á Reykjavíkurflugvelli mjög góðar

Í niðurlagi skýrslunnar segir að ef Keflavíkurflugvöllur væri eini flugvöllurinn á Suðvesturlandi, þaðan sem hægt er að halda uppi innanlandsflugi og millilandaflugi, væri höfuðborgarsvæðið án flugsambands við umheiminn og landsbyggðina ef Keflavíkurflugvöllur tepptist eða lokaðist af einhverri ástæðu. Slíkt væri ekki ásættanlegt með tilliti til samfélagslegs öryggis né flugöryggis. Nauðsynlegt sé að geta brugðist við truflunum á starfsemi Keflavíkurflugvallar. Þá myndi vanta varaflugvöll fyrir innanlandsflug.

Einnig séu allar aðstæður til flugs mjög góðar á Reykjavíkurflugvelli og þá sé hann í heppilegri fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli, þar sem að- og fráflugsferlar þessara flugvalla skarast afar lítið. Eins sé hann tiltölulega fjarri eldstöðvum á utanverðu Reykjanesi, sem gætu haft áhrif á rekstur aðalflugvallarins.

Flugvöllur í Hvassahrauni kæmi til greina

Skýrsluhöfundar segja að vissulega komi til greina að hafa flugvöll í Hvassahrauni en þá að því gefnu að skilyrði til flugs vegna veðurs og annarra umhverfisþátta sé sambærilegt við aðstæður á Reykjavíkurflugvelli.

Mikið landrými sé í Hvassahrauni þannig að hægt væri að byggja upp aðstöðu fyrir alla þá flugstarfsemi sem nú er á Reykjavíkurflugvelli. Auk þess væri unnt að taka á móti fleiri gerðum stórra flugvéla en mögulegt er Reykjavíkurflugvelli. Þetta mundi efla hlutverk þessa flugvallar sem varaflugvallar fyrir millilandaflug.

Helsu ókostir Hvassahraunsflugvallar frá almennu öryggissjónarmiði sé hins vegar að hann liggur óþægilega nálægt aðalflugvellinum bæði frá loftrýmissjónarmiði og vegna utanaðkomandi áhrifa hvort sem er vegna náttúruvár eða vegna hugsanlegra truflana á samgöngum við helstu miðstöðvar og stofnanir á höfuðborgarsvæðinu.