Þarf að hemja þennan „ábyrgðarleysis-kúltúr“

21.01.2016 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stjórnendur Landsbankans hafi gert alvarleg mistök þegar hlutur hans í Borgun var seldur. Staðreyndirnar sem liggi fyrir rími ekki við skýringar bankans og það styðji að alvöru rannsókn fari fram á sölu hlutarins. Fjármálaráðherra segist styðja það ef menn vilji skoða söluna með einhverjum hætti – málið sé aftur á móti ekki á hans borði.

Í gærkvöld var greint frá því að Landsbankinn fær ekki hlut í hagnaði Borgunar vegna yfirtöku Visa International Service á Visa Europe. Hagnaður íslensku kortafyrirtækjanna er talin nema vel á annan tug milljarða.

Árni Páll sagði í fréttum RÚV í gærkvöld að ekki nokkur maður gæti treyst verðmati Landsbankans á Borgun þegar þeir heyrðu þessa lýsingu. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði að bankinn hefði ekki séð fyrir þennan milljarða hagnað.

Hann tók málið upp á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma og spurði hvernig fjármálaráðherra ætlaði að bregðast við og endurreisa traust á bankanum og hvort ráðherra styddi rannsókn á sölu Borgunar. Nauðsynlegt væri að draga lærdóm af þessu máli þar sem sala á ríkiseignum væri fyrirhuguð á næstunni.

Bjarni Benediktsson sagði málefni bankans ekki á sínu borði – það væri ekki hlutverk hans að bera ábyrgð á trausti hans. Slíkt væri á forræði stjórnenda og Bankasýslunnar sem færi með hlutabréf ríkisins. 

Bjarni sagði að við fyrstu sýn virtist þessi virðisaukning hafa orðið til eftir sölu Landsbankans. Hann myndi þó ekki standa í vegi fyrir því að ef menn vildu skoða þessa sölu með einhverjum hætti. „Ég er ekki í vafa um að stjórnendur bankans vilji koma fyrir þingnefndina og útskýra þetta – eins og þeir hafa áður gert.“

Árni Páll sagði að staðreyndirnar sem liggi fyrir rími ekki við þær skýringar sem bankinn hefði sett á vef sinn. Það styðji að alvöru rannsókn fari fram. „Það skiptir máli að rannsaka þetta. Það liggur fyrir sala ríkiseigna og ráðherra hefur lagt fram frumvarp um að eignasafn Seðlabankans fái sextíu milljarða eignir og komi þeim áfram í sölu. Þar kemur einnig fram að stjórn eignafélagsins sé ábyrgðarlaus af öllu sem gert er og að einstaka starfsmenn hafi heimild til að selja eignir fyrir allt að milljarð.“ 

Nauðsynlegt væri að hemja þennan „ábyrgðarleysiskúltúr“ og búa til fastari og agaðri umgjörð um sölu ríkiseigna.

Bjarni sagðist ekki vita til þess að það væri neinn ágreiningur um sölu ríkiseigna – frumvarpið um stöðugleikaframlagið væri til þess að auka gagnsæið. „Á einhverjum tímapunkti þurfa menn að taka ákvarðanir og það er ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í hvert skipti sem selja á ríkiseignir.“ Menn ættu að gefa sér tíma og vera ekki með sleggjudóma. Ágætt væri að menn hugleiddu það að þetta sýndi hversu mikilvægt væri að koma ríkiseignum til almennings þannig að menn héldu ekki alltaf að það væri verið að toga í einhverja spotta.

Árni Páll hefur áður gagnrýnt þessa sölu og sagði í apríl á síðasta ári að hún væri hneyksli. Bankaráðsformaður Landsbankans hefur viðurkennt að það hefði verið betra að selja Borgun í opnu söluferli.