„Þar vega menn hver annan í mesta bróðerni“

12.02.2016 - 11:44
Óljóst er hvaða áhrif bréf Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, til flokksmanna hefur á stöðu hans og flokksins. Í bréfinu viðurkennir flokksformaðurinn margvísleg mistök á liðnum árum. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn í miklum vanda, fylgið sé lítið, en það sé engum einum að kenna. Helgi ræddi vanda Samfylkingarinnar og íslenskra stjórnmála á Morgunvaktinni á Rás, ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins.

En ætli bréf flokksformanns Samfylkingarinnar gagnist honum eða flokknum? Helgi Hjörvar getur ekki frekar en aðrir svarað því á þessari stundu. „Mér finnst skiljanlegt að Árni Páll vilji draga það fram að þetta er þróun á löngum tíma. Við erum mörg sem berum ábyrgð á þessari stöðu“, segir Helgi, og hann segist geta tekið undir margt í bréfi formannsins. „En góðu fréttirnar eru þær að framkvæmdastjórnin hefur ákveðið að verða við kröfu flokksmanna um að efna til landsfundar í byrjun júní og allsherjaratkvæðagreiðslu um formennsku og önnur forystusæti. Það gefur okkur tækifæri til að fara í umræður við flokksmenn um það hvernig við breytum stefnu okkar og starfsháttum – til að ná þeim árangri sem jafnaðarmannaflokkur þarf að ná“. Helgi treystir sér ekki til að segja neitt til um það hverjir gefi kost á sér til formennsku, en nöfn hans og Katrínar Júlíusdóttur hafa oft verið nefnd, auk Oddnýjar Harðardóttur.

En hvernig blasir forystuvandi Samfylkingarinnar við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins? Hún minnir á sögu Alþýðuflokksins, sem stofnaður var fyrir einni öld, árið 1916, og setningu sem oft var farið með og hljóðaði svona: „Þar vega menn hver annan í mesta bróðerni“. Og Ragnheiður bætti við: „Mér sýnist nú Samfylkingunni vera að takast það. Ekki er langt síðan sá ágæti flokkur, eða hluti hans, fór gegn þáverandi formanni sínum, Ingibjörgu Sólrúnu, í svokölluðu Landsdómsmáli. Og nú er farið gegn Árna Páli, eins og fylgishrun flokka sé alltaf einum að kenna. Í pólitík er fylgi flokks ekki háð formanninum einum og sér. Það er háð grasrótinni, forystumönnum – og orðræðunni“.

En af hverju ná gömlu flokkarnir ekki betur til unga fólksins? „Klárlega vegna þess að við erum ekki að tala sama tungumál, erum ekki á sömu bylgjulengd. Margir í mínum flokki telja ennþá að til þess að ná til flokksmanna eigi maður að skrifa greinar í Morgunblaðið. Það eru ekki nema gallhörðustu sjálfstæðismenn, þeir elstu, sem kaupa Morgunblaðið“, segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Hún og Helgi Hjörvar ræddu vanda hefðbundinna stjórnmála vítt og breitt. Helgi segir að unga fólkið hafi ekki áhuga á eilífri naflaskoðun eldri stjórnmálamanna. „Og þessum hætti okkar að kenna alltaf hinum um. Við í Samfylkingunni Sjálfstæðisflokknum – og þau okkur. Þrátta um það sem var í fortíðinni, hver gerði hvaða mistök hvenær og hvaða mistök voru verst. Þetta er bara svo óáhugavert. Ég held að það sé mikið heilbrigðismerki hjá nýjum kynslóðum að gera kröfur um að við ræðum um daginn í dag“, sagði Helgi Hjörvar.