„Það tókst, loksins“

10.01.2017 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Það tókst, loksins, ekki í fyrstu tilraun. Þónokkuð langur vegur frá kosningum,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi forsætisráðherra, um myndun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í Gerðarsafni í dag. Hann benti á að það hefði tekið langan tíma að mynda ríkisstjórn og að menn hefðu þurft að sýna þolinmæði til að ná árangri.

Þessi ríkisstjórn fær í vöggugjöf mjög góðar ytri aðstæður sagði Bjarni, hann sagði þó skipta máli þegar vel árar að hafa skýra stjórnarstefnu. Bjarni kvað ríkisstjórnina leggja áherslu á að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og uppbyggingu innviða.

Horft til framtíðar

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði flokk sinn hafa talað fyrir kerfisbreytingum án kollsteypa. Þetta sagði hann nást fram í stjórnarsáttmálanum. „Við erum að hugsa um ríkisstjórn sem horfir til framtíðar. Við erum líka að hlusta á ákall þjóðarinnar í heilbrigðismálum, öldrunarmálum.“

Benedikt sagðist vilja ná sátt milli neytenda og framleiðenda, útgerðarmanna og sjómanna. Hann sagði jafnlaunavottun vera eitt fyrsta málið sem ný ríkisstjórn tæki upp.

Óvissutímabili lokið

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði að nú væri að ljúka löngu tímabili eftir kosningar, óvissutímabili þar sem erfiðlega hefði gengið að mynda ríkisstjórn. Hann sagði búið að vinna vel í haginn fyrir farsæla frjálslynda og framsýna ríkisstjórn. Hann sagði að byggt yrði á stöðugleika en líka komið á meiri framtíðarhugsun. Óttarr lagði áherslu á uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. „Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar.“

Óttarr vísaði til málflutnings flokks síns um breytt vinnubrögð og betra samráð og samstarf við aðra flokka. Hann sagði það ákveðinn styrkleika að ríkisstjórnin hefði aðeins eins manns meirihluta, það kallaði á meira samstarf í þinginu.

Hvorki almennar skattahækkanir né víðtækar lækkanir

„Við erum að tala hér um stöðugleika. Það er hér velgengni í efnahagsmálum. Allir flokkar hafa viðurkennt það. Við verðum að gæta okkur að því að forgangsraða peningunum,“ sagði Benedikt aðspurður hvort skattar yrðu hækkaðir eða lækkaðir. „Við höfum jafnframt sagt, miðað við núverandi aðstæður þar sem er bæði þörf á að bæta en líka góð staða í þjóðarbúinu höfum við sagt að ekki sé horft til almennra skattahækkana eða víðtækra skattalækkana.“

Evrópumál ráðist á þingi

Óttarr sagði að það hefði verið ljóst í öllum stjórnarmyndunarviðræðum allra flokka að ekki væri sátt um Evrópumálin. Hann sagði Bjarta framtíð sátta við að ekki væri hægt að halda áfram með viðræður við Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Hérna er gert ráð fyrir þeim möguleika að komi slíkt mál fram þá muni það vera leitt til lykta á Alþingi og tekin ákvörðun um slíkt,“ sagði Óttarr og kvaðst sáttur við þá niðurstöðu. Hann sagði skynsamlegt miðað við stöðuna í Evrópu og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu að þetta gerðist ekki fyrr en á seinni helmingi kjörtímabilsins. Það réðist af aðstæðum en ekki samningum flokkanna þriggja. Að auki ætlaði Evrópusambandið ekki að taka við fleiri aðildarríkjum á næstunni. Aðspurður hvort samkomulag stjórnarflokkanna kvæði á um að Viðreisn og Björt framtíð legðu ekki fram slíka tillögu sagði Óttarr ekki svo vera.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV