„Það skiptir máli að geta unnið með fólki“

12.01.2017 - 10:13
Það leggst vel í Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Suðurkjördæmis, að taka við embætti forseta Alþingis en hún minnir á að eftir eigi að kjósa í embættið. Stjórnarflokkarnir munu leggja til að Unnur Brá setjist í þetta virðingar- og áhrifaembætti. Hún hefur setið á Alþingi frá árinu 2009, verið einn varaforseta, var formaður allsherjarnefndar á síðasta þingi, formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins.

Nýi stjórnarmeirihlutinn er naumur og það á vafalaust eftir að reyna á hæfni verðandi þingforseta að miðla málum og leita sátta þvert á línur milli stjórnarliðs og stjórnarandstæðinga. „Já, það er eitthvað sem við eigum að gera meira af og það er mín reynsla af þingstörfunum að það er vel hægt.“ Unnur Brá vísar til þeirra vinnubragða sem viðhöfð voru í allsherjarnefnd á síðasta kjörtímabili. Telja verður líklegt að Unnur Brá hafi einmitt verið valin til að taka við embætti forseta Alþingis vegna þess að hún nýtur trausts þvert á flokkslínur. „Auðvitað vona ég það. Vegna þess að það skiptir máli að geta unnið með fólki í þessu starfi.“

Unnur Brá Konráðsdóttir óttast ekki að með því að taka við embætti forseta Alþingis sé hún að stimpla sig út úr hinni pólitísku baráttu.

„Nei, ég vil meina, ef af verður, að ég sé að fara í starf sem gefur mér mikla reynslu. Ég er ekki að hætta í pólitík.“

Hún viðurkennir að hingað til hafi mjög reyndir þingmenn gjarnan endað ferilinn á forsetastólnum en nú séu nýir tímar. Hún vilji til dæmis beita sér fyrir því að í dagskrá þingsins sé betur tekið mið af hagsmunum fjölskyldufólks á þingi.

En hvað vill Unnur Brá segja um óánægju oddvita lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Páls Magnússonar og fleiri, um að gengið hafi verið framhjá kjördæminu við skipan í ráðherrastóla? „Það hefði auðvitað verið gott fyrir kjördæmið að fá ráðherra. En maður verður að sýna skilning á því að formaðurinn þurfti að taka ákvörðun. Þetta var hans tillaga.“

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi