Það kemur enginn þegar lokað er

28.01.2016 - 17:11
Erlendir ferðamenn við Gullfoss.
 Mynd: Kári Jónasson  -  RÚV
Smærri ferðaþjónustufyrirtæki í Eyjafjarðarsveit ætla að hefja átak til að laða að ferðamenn yfir vetrartímann. Formaður Ferðamálafélags sveitarinnar segir að ekki sé lengur hægt að líta svo á að það taki því ekki að hafa opið því enginn kom. Það komi enginn þangað sem er lokað.

 

Þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna hérlendis síðustu ár hefur fjölgunin víða á landsbyggðinni verið mun minni en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur til dæmis áhrif á áform um hótelbyggingar á Akureyri og opnunartíma hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

Karl Jónasson, formaður Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar, segir að þar hafi menn orðið varir við aukinn fjölda ferðamanna undanfarið og er sannfærður um að ferðamönnum norðanlands eigi eftir að fjölga töluvert yfir vetrarmánuðina. „Það er of algengt og bara eðlilegt, sérstaklega að smærri ferðaþjónustuaðilar sjái sér ekki hag í því að hafa opið allan daginn yfir vetrartímann. En við verðum að fara að hugsa upp einhverjar leiðir og aðferðir til að fara að opna þessa þjónustu hjá sér með einhverjum hætti.“

Í þessum tilgangi hafa ferðaþjónustufyrirtæki í Eyjafjarðarsveit ákveðið að hafa opið hjá sér á föstudögum það sem eftir lifir vetrar, sum alla föstudaga en önnur annan hvern. Karl segir drauminn þann að ferðaþjónar á öðrum svæðum hafi líka opið hjá sér einn dag í viku svo ferðamenn geti gengið að einhverju vísu hvern dag vikunnar á Norðurlandi. Föstudagar eru heppilegir snjómokstursdagar og því urðu þeir fyrir valinu.

„Við náttúrulega getum ekki lengur sagt að það þýði ekki að hafa opið því það komi enginn, auðvitað kemur enginn ef það er lokað,“ segir Karl. „Við verðum að snúa þessari hugsun.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV