„Þá verður skaði á heilanum“

17.07.2017 - 19:44
Höfuðhöggið sem Gunnar Nelson varð fyrir í bardaga í gærkvöld veldur heilaskaða. Þetta segir bráðalæknir á Landspítalanum. Formaður Mjölnis segir að keppendur séu meðvitaðir um áhættuna sem fylgi blönduðum bardagaíþróttum. Og rétt er að vekja athygli á því að höfuðhöggið úr bardaganum í gær birtist í þessari frétt.

Þjóðin stóð á öndinni þegar Gunnar Nelson var rotaður þegar tæplega ein og hálf mínúta var liðin af bardaga hans við Argentínumanninn Ponzinibbio í Skotlandi í gærkvöld. Gunnar fékk tvö þung höfuðhögg og lyppaðist niður eftir seinna höggið. Högg sem þetta getur haft alvarlegar afleiðingar.

„Höfuðið er ekki hannað til þess að berja það og það er alveg ljóst að þegar menn fá svona þung högg á höfuðið, eins og maður sá að Gunnar fékk í gær, þá verður skaði á heilanum. Eftir því sem höggin eru þyngri þeim mun alvarlegra er það en það er líka vel þekkt að mörg lítil högg geta valdið langvinnum skaða á heilanum,“ segir Hjalti Már Björnsson bráðalæknir.

Afleiðingarnar geta komið fram löngu síðar. Hjalti Már er auk þess þeirrar skoðunar að blandaðar bardagaíþróttir séu ekki íþrótt.

„Það er vel þekkt, eins og Muhammed Ali er frægasta dæmið um, að eftir því sem að höggin eru fleiri og alvarlegri og yfir lengri tíma, þeim mun meiri líkur eru á að einkenni heilaskaða komi fram. Að mínu mati er MMA ofbeldi og það breytir ofbeldi ekki í íþrótt þótt maður fari að keppa í ofbeldinu. Það er augljóst mál að í þessu MMA er beinlínis markmið að koma þungum höggum á höfuðið.“

Bardagaíþróttamenn eru hins vegar fullmeðvitaðir um hættuna sem fylgir íþróttinni og segja að hún sé ekki ofbeldi.

„Ef tveir menn koma saman og ætla að keppa í bardagaíþrótt þá er það eins langt frá því að vera ofbeldi og hægt er af því þeir eru báðir meðvitaðir um hvað er í gangi. Höfuðhögg eru hættuleg og við vitum það örugglega best af öllum. Við bara kjósum að gera þetta. Þetta er það sem við viljum gera og elskum að gera. Okkar íþrótt bara,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis.

Höfuðhögg séu því eitthvað sem menn megi vænta.

„Já, að sjálfsögðu, þegar þú stígur inn í búrið þá veistu alveg að þú getur fengið höfuðhögg og rotast. Gunnar er búinn að vera í bardagaíþróttum síðan hann var þrettán ára. Þetta er í fyrsta skipti sem hann rotast. Ef þú talar við einhverja fótboltastráka eða markverði eða eitthvað og spyrð þá hversu oft þeir hafa rotast eða farið með heilahristing af fótboltavelli þá geta þeir alveg talið upp nokkur skipti.“

Hjalti Már tekur undir að hætta sé á höfuðhöggum í öðrum íþróttum. Það sé þó ekki sambærilegt við blandaðar bardagaíþróttir.

„Þar er þó alltaf hægt að segja að höfuðhöggin eru slys. Það er eðlismunur á því sem er mjög mikilvægur.“

Gunnar Dofri Ólafsson