Temer formlega sakaður um samsæri og spillingu

20.05.2017 - 03:53
epa05973031 Brazilian President Michel Temer speaks during a televised message to the nation, broadcasted from the Presidential Palace of Planalto in Brasilia, Brazil, 18 May 2017. Temer rejected stepping down from his position, as demanded by the
 Mynd: EPA  -  EFE
Ríkissaksóknari Brasilíu hefur formlega sakað Michel Temer, forseta landsins, um að brugga samsæri með samherja sínum í ríkisstjórninni um að þagga niður í vitnum og reyna að hindra rannsókn á viðamiklu spillingarmáli. Ásakanirnar byggja á því sem fram kemur í vitnisburði stjórnenda JBS, stærstu kjötvinnslu veraldar, sem reyna nú að semja sig frá fangelsisvist fyrir mútur og innherjasvik með því að ljóstra upp um spillingu stjórnmálamanna.

The Guardian greinir frá því að málið hafi vaxið að umfangi í gær þegar upplýst var að í þessum vitnisburði stjórnenda JBS væru yfir eitt þúsund brasilískir stjórnmálamenn bendlaðir við spillingar- og mútumál. Þar á meðal væru forsetinn Temer og fyrrverandi forsetarnir Dilma Rousseff og Luiz Inácio Lula da Silva, auk Aécio Neves, sem lenti í öðru sæti í forsetakosningunum árið 2014 og myndar nú ríkisstjórn ásamt Temer.

Ræðir um mútugreiðslur á upptöku

Dilma Rousseff vann forsetakosningarnar 2014 en var svipt embættinu í fyrra eftir að hún var sökuð um að falsa ríkisreikninga til að tryggja sér endurkjör. Temer tók þá við, en hann hafði verið einn helsti hvatamaðurinn að því að steypa Rousseff af stóli, ásamt þingforsetanum Eduardo Cunha, sem í mars var dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir spillingu, peningaþvætti og skattsvik.

Brasilíska dagblaðið O Globo hefur undir höndum upptöku þar sem Temer heyrist ræða þann möguleika að greiða Cunha fyrir þagmælsku.

Ríkissaksóknarinn Rodrigo Janot segir að Temer og Neves hafi reynt að koma í veg fyrir eða draga úr rannsókn yfirvalda á mútugreiðslum stórfyrirtækja í landinu til stjórnmálamanna, ýmist með lagabreytingum eða með því að hafa bein áhrif á þá sem stýra rannsókninni.

Þegar er farið að kalla eftir því að Temer segi af sér og mótmæli hafa verið boðuð í því skyni.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV