Telur Trump segja af sér fyrir áramót

18.08.2017 - 06:12
National Security Adviser H.R. McMaster, left, and Vice President Mike Pence listen as President Donald Trump speaks to reporters after a security briefing at Trump National Golf Club in Bedminster, N.J., Thursday, Aug. 10, 2017.  (AP Photo/Evan Vucci)
 Mynd: AP Images  -  RÚV
Ævisagnaritari Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, telur hann eiga eftir að hætta störfum áður en kjörtímabili hans lýkur. Hringurinn sé stöðugt að þrengjast að honum og brátt eigi hann engra annarra kosta völ.

Tony Schwartz, rithöfundur og ritari sjálfsævisögu Trumps frá 1987, „The Art of the Deal," skrifaði á Twitter í gær að Trump eigi eftir að segja af sér áður en rannsóknin á meintum tengslum hans og starfsliðs hans við Rússa geri honum annað ómögulegt.

Schwartz segir Trump vera við það að vera málaðan út í horn, en hann eigi eftir að segja af sér og lýsa yfir sigri áður en Robert Mueller, sérstakur saksóknari, og Bandaríkjaþing þvingar hann til afsagnar.
Schwartz hélt áfram og sagði forsetatíð Trumps í raun lokið. Hann telur ólíklegt að hann sitji í embætti út þetta ár.

Bandaríski fréttavefurinn The Hill segir frá því að Schwartz hafi lagt fram svipaða spá í maí. Þá sagði hann að fyrir Trump væri ekkert rétt eða rangt, heldur sigur eða tap. Hann óttist fátt meira en að tapa.