Telur ólympíufara ekki þurfa að óttast Zika

24.02.2016 - 01:57
epa05138853 China's Margaret Chan, General Director of the World Health Organization, WHO, informs to the media during a press conference after the first meeting of the International Health Regulations (IHR) Emergency Committee concerning Zika virus,
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Margaret Chan, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir heiminn eiga langa baráttu fyrir höndum í stríðinu við Zika-veiruna. Hún kveðst þó sannfærð um að Brasilíumönnum takist að halda ólympíleikana í sumar án teljandi vandræða þrátt fyrir áhyggjur af Zika-verunni. Nú væri febrúar, en leikarnir yrðu ekki fyrr en í ágúst.

Chan, sem ávarpaði fréttamenn er hún var í heimsókn í Brasilíu, þar sem langflest Zika-tilfelli hafa greinst, sagði veiruna erfiða viðfangs, ófyrirsjáanlega og óþægilega lífseiga.  Áhyggjur af keppendum og gestum á Ólympíuleikunum í Brasilíu væru því eðlilegar, en hún er bjartsýn á að hægt verði að tryggja öryggi þeirra.  

Sagði hún stjórnvöld í Brasilíu vinna ötullega að mótun áætlunar gegn orsök vandans, moskítóflugunni, í nánu samstarfi við Alþjóðaólympíuhreyfinguna, skipuleggjendur leikanna heima fyrir, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Heilbrigðismálastofnun Ameríkuríkja. Chan sagði að tryggja yrði bæði áhorfendum og keppendum á ólympíuleikunum þá vernd sem þeir þyrftu og kvaðst sannfærð um að stjórnvöldum tækist það.