Telur fráleitt að stefna kennaranum

07.03.2016 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, telur fráleitt að foreldri nemanda í Kelduskóla stefni kennara vegna þess að hann lét nemendur hreinsa klaka af gervigrasvelli sem lagður er dekkjakurli.

Fréttastofa RÚV fjallaði um málið um helgina. Ólafur segir í Morgunblaðinu í dag að kennarinn hafi starfað samkvæmt reglum borgarinnar. Ef einhver verði dæmdur vegna hreinsunarinnar, þá verði það tæplega kennararnir þar sem Reykjavíkurborg sé opinberlega búin að samþykkja verknaðinn.

Reykjavíkurborg beri því frekar ábyrgðina sé hún til staðar, segir Ólafur í umfjöllun Morgunblaðsins í dag.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykavíkurborgar, segir  í tölvupósti til fréttastofu RÚV, að sviðið hafi á liðnum árum hvatt kennara og skóla til þess að rækta með nemendum borgaravitund. Börnin hafi beðið um að fá að hreinsa klaka af sparkvellinum og leyfið hafi verið veitt meðal annars vegna fyrrgreindra áherslna.