Telur að framleiðsla gæti minnkað of mikið

14.09.2017 - 17:17
Mynd með færslu
Frá fundinum í dag  Mynd: Jón Þór Kristjánsson  -  RÚV
Framkvæmdastjóri Norðlenska telur að tillögur landbúnaðarráðherra um fækkun sauðfjár gætu dregið of mikið úr framleiðslu á lambakjöti. Ef ríkið styðji ekki áfram við útflutning stefni hins vegar í mikinn birgðavanda til skemmri tíma. 

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, hélt í dag erindi á fundi Samtaka atvinnurekenda á Akureyri og fjallaði um stöðu sauðfjárræktar. Var honum tíðrætt um erfiðan rekstur afurðastöðva sem skýri lækkun á afurðaverði til bænda annað árið í röð. Norðlenska tapaði 400 milljónum króna á sauðfjárhluta rekstrarins á síðustu þremur árum. 

Æskilegt að fækka sláturhúsum

Samkvæmt tillögum landbúnaðarráðherra vegna erfiðleika í sauðfjárrækt á að gera úttekt á afurðastöðvakerfinu. Ágúst er jákvæður gagnvart því og telur að slík úttekt geti verið hjálpleg. Sér hann fyrir sér að með fækkun sláturhúsa, jafnvel um þrjú eða fjögur, geti verið hægt að ná fram talsverðri hagræðingu. 

„Og vera þá með færri fermetra ónotaða í tíu mánuði á ári. Þá er alltaf spurning hvernig það er leyst varðandi frelsi bænda til viðskipta, ef sláturleyfishafar eru svo fáir að það er ekki landfræðilega mögulegt fyrir menn að stunda viðskipti við fleiri en einn,“ segir Ágúst. Því þurfi að vanda til verka ef ráðast á í slíkar aðgerðir. 

Þar með tekur Ágúst undir með formanni Landssamtaka sláturleyfishafa sem segist tilbúinn að skoða allar leiðir til hagræðingar í greininni. Formaðurinn hefur jafnvel sagst vilja skoða að taka upp sambærilegt kerfi og í mjólkuriðnaði, þar sem veitt er undanþága frá samkeppnislögum, sem geri það auðveldara að vinna saman. Ágúst Torfi er þó ekki sannfærður um að það sé besta leiðin. „Ég held það sé þung leið að fara úr samkeppnisrekstri yfir í rekstur sem er ekki í samkeppni. Ég held að tíðarandinn sé bara sá að menn séu frekar að færa sig frá því frekar en hitt þannig að mér finnst það ekki líklegur kostur,“ segir Ágúst. 

Hefur áhyggjur af „undirskoti“

Í tillögum ráðherra er lagt til að bændum verði greitt fyrir að hætta eða draga úr framleiðslu. Ágúst Torfi hefur áhyggjur af því að þetta hafi í för með sér „undirskot“, að fækkun bænda leiði til þess að framleiðsla minnki of mikið. „Þá þyrftum við að regla okkur upp og niður þangað til við næðum jafnvægi í staðinn fyrir að eiga mjúka lendingu í æskilegu magni. Það þarf að passa vel hvernig þetta er útfært, en förum ekki í einhvern skort og offramboðs fasa.“

Offramleiðsla og miklar kjötbirgðir eru meðal helstu ástæða þess að verð til bænda var lækkað í ár. Nú lítur hins vegar út fyrir að birgðirnar séu minni en áður var talið. Ágúst segir það fyrst og fremst skýrast af því að 180 milljónum króna af opinberu fé var varið í að styðja við útflutning á árinu. Hins vegar bendi ekkert til þess að stuðningsins njóti áfram, ef marka megi tillögur ráðherra. Hann segir að almennt séu afurðastöðvar að borga með útflutningi og því sé það áhyggjuefni ef ríkið styðji ekki við hann áfram. 

„Í gegnum þetta verkefni voru flutt út um 850 tonn af kjöti. Ef það verður ekkert framhald á þessu og engar breytingar á aðstæðum ytra, sem ekkert bendir til að verði í dag, þá erum við að horfa á birgðavanda eða enn frekara tap því menn eru að selja á mjög lágu verði til útflutnings. Það veldur áhyggjum,“ segir Ágúst Torfi. 

 

Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV