Telur að Borgunarmálið sé rétt að byrja

06.02.2016 - 16:07
Mynd með færslu
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.  Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að atburðarrásin í Borgunarmálinu sé skólabókardæmi um hætturnar sem fylgi því þegar viðskipti í fjármálakerfinu fari fram fyrir luktum dyrum. Borgunarmálið sé rétt að byrja.

Bankastjóri Landsbankans sagði í hádegisfréttum RÚV að bankinn myndi leita réttar síns kæmi í ljós að stjórnendur Borgunar hefðu búið yfir upplýsingum um að kortafyrirtækið hafi átt rétt á greiðslum vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe við söluferli á hlut bankans í fyrirtækinu. Landsbankinn hefur gefið stjórnendum Borgunar frest til þriðjudags til að svara spurningunum, en bankastjórinn segist enn trúa því að menn hafi starfað af heilindum.

Á vefsíðu sinni segir Árni Páll að Landsbankinn beri ábyrgð gagnvart almenningi og forsvarsmenn annarra fjármálafyrirtækja líka. Svo virðist sem stjórnendur hafi ákveðið að selja stjórnendum Borgunar og handvöldum vildarvinum hlut Landsbankans í félaginu án fullnægjandi rannsóknar. Góðlátlegt vinaspjall eigi ekki að ráða tilfærslum á eignarhlutum í fjármálakerfinu. Á fjármálafyrirtækjum ríki ábyrgð sem þau hafi ekki axlað að nokkru leyti.