Telja að árásin í Turku hafi beinst að konum

19.08.2017 - 12:40
epa06151029 People place candles and flowers on a site of a stabbing at the Market Square in Turku, Finland, 19 August 2017. According to police reports, two people were killed and eight people injured on 18 August in a stabbing spree on two market
 Mynd: EPA  -  COMPIC
Finnska lögreglan telur að árásin í Turku, þar sem tveir létust og átta særðust, hafi beinst að konum. Hún er nú rannsökuð sem hryðjuverk. Maðurinn sem er í haldi, grunaður um ódæðisverkið, er 18 ára og frá Marokkó líkt og flestir tilræðismennirnir sem myrtu fjórtán og særðu yfir 100 í tveimur árásum á Spáni á fimmtudag.

Fram kemur á vef BBC að finnska lögreglan hafi fjóra aðra Marokkóbúa í haldi og lýst hefur verið eftir sjötta manninum sem er einnig sagður frá Marokkó. 

Hlutverk þeirra fimm sem voru handteknir í nótt er nú til rannsóknar og hvort þeir hafi yfir höfuð haft eitthvað með árásina að gera. Markus Laine, yfirlögregluþjónn rannsóknarlögreglunnar í Finnlandi segir þó vitað að þeir hafi verið í sambandi við árásarmanninn.

Þeir sem létust í árásinni í Turku voru Finnar en fólk frá Bretlandi, Svíþjóð og Ítalíu er meðal þeirra sem særðust. Óstaðfestar fregnir herma að sex af þeim átta sem særðust séu konur. 

Lögreglan hefur ekki viljað gefa upp nafn árásarmannsins en segist vita hver hann er. Hann hafi komið til Finnlands í fyrra og hafi sótt um hæli.  Hann er enn á sjúkrahúsi en lögreglan skaut hann í fæturna.