„Tekur tíma að leysa þessi mál“

18.02.2016 - 17:21
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Eyþór Arnalds, stjórnarformaður málmendurvinnslu GMR á Grundartanga, segir að unnið sé að úrbótum á mengunarvörnum fyrirtækisins, í samræmi við athugasemdir Umhverfisstofnunar. Það muni þó taka einhverja mánuði. Stofnunin beitir fyrirtækið dagsektum vegna ítrekaðra vanefnda. Ófullnægjandi mengunarvarnir og ítrekaðar vanefndir á lagfæringu þeirra eru ástæða dagsektanna. Mengunin vel sjáanleg á myndböndum sem tekin voru fyrir fyrir tæpum tveimur árum og vakti athygli eftirlitsmanna.

Umhverfisstofnun hefur gert hátt í þrjátíu athugasemdir við starfsemi málmendurvinnslu GME á Grundartanga á innan við þremur árum, vegna frávika sem talin eru vera brot á starfsleyfi fyrirtækisins. Kastljósið fjallaði um málið í gær.

Málmendurvinnslan sætir nú 50 þúsund króna dagsektum vegna ítrekaðra vanefnda fyrirtækisins á því að koma mengunarvörnum í viðunandi horf. Þar að auki hefur starfsemi fyrirtækisins valdið rafmagnstruflunum hjá notendum á svæðinu, sem hafa kvartað til RARIK. Þá hyggst Vinnueftirlit ríkisins heimsækja verksmiðju GMR vegna afskipta Umhverfisstofnunar af fyrirtækinu.

„Við höfum gripið til úrræða, til þess að leysa málin og við erum bara að vinna eftir því plani,“ segir Eyþór Arnalds í samtali við fréttastofu. „GMR er að endurvinna sem er náttúrulega nútíminn og jákvætt mál. Það er umhverfisvænt í eðli sínu og það þarf bara að passa að allir hlutirnir séu í lagi.“

Aðspurður um af hverju það hafi tekið fyrirtækið svona langan tíma að bregðast við athugasemdum Umhverfisstofnunar, svarar stjórnarformaður GMR: „Það tekur tíma að þróa ný verkefni, þetta var nýsköpunarverkefni GMR sem fór af stað fyrir nokkrum árum og það tekur tíma að leysa þessi mál og setja fjármuni í það, en það er verið að gera það. Það sem ekki er búið að leysa.“   

Í myndskeiðum sem hlaðið hefur verið upp á youtube.com má sjá myndbönd sem tekin hafa verið af mengun við verksmiðjuna. Þar sést hvernig ryk sem fara á í gegnum hreinsivirki verksmiðjunnar og þaðan út um skorsteina fer út um op á verksmiðjuhúsnæðinu. Svokallað afsog virðist þannig ekki ráða við mengun í verksmiðjunni og því ekki hreinsa útblástur úr henni. Ástæða dagsektanna sem lögð voru á fyrirtækið nú, eru vegna þess. 

Myndböndin eru dagsett í maí og júní 2014

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós