Tekur myndir af skipum, bílum og Sturlu Atlas

13.06.2017 - 16:47
Ljósmyndarinn Kjartan Hreinsson hefur getið sér gott orð á myndrænum samfélagsmiðlum eins og Instagram og Tumblr undanfarin ár og einnig sem hirðljósmyndari hljómsveitarinnar Sturlu Atlas. Stíll hans er afgerandi en erfitt er að henda reiður á hvað það er sem einkennir ljósmyndir hans.

Kjartan gerir mikið af því að fanga hráan hversdagsleikann í ljósmyndum sínum. En hvernig byrjaði hann að taka ljósmyndir? „Tvennum ástæðum. Þegar ég var í framhaldsskóla þá var ég að fylgjast með veggjakroti en þorði ekki að spreyja sjálfur og var í staðinn mikið að mynda. Eftir framhaldsskóla fór ég til New York og keypti mér myndavél og hef verð að mynda síðan,“ segir Kjartan í samtali við Lestina.

Hvort sem hann er meðvitaður eða ómeðvitaður um það, þá grípur hann hann víðavang vanagangsins og gerir augnablik flatneskjunnar og svipleysunnar sexí.

Hvort sem það er ljósmynd sem sýnir brotabrot af hálf-appelsínugulum togara sem kallast Sólberg, mynd af bleikum bíl, daufleitt fiskikar eða vörubíl frá sameignarfélaginu Nýverkum. Hvort sem það er maður að spila borðtennis, kona að hnoða leir, vaffla með rjóma og sultu sem stillt er upp við hlið stútfulls mjólkurglass eða tannbursti í plastpoka, planta í bílsæti, beltisól, glingur, blindbylur við bensínstöð Olís í Garðarbænum, þá færir Kjartan umhverfi flatneskjunnar á æðra þrep. Hið grámóða sem augað almennt tekur vart eftir fyllist litskrúðugum þokka. 

 

A post shared by Kjartan Hreinsson (@k_tanman) on

A post shared by Kjartan Hreinsson (@k_tanman) on 7 at 5:38pm PDT

Það eru ýmis endurtekin viðfangsefni og mótíf í ljósmyndum Kjartans; skip, bryggjur, skærir litir, bensínstöðvar, iðnaðarmannvirki, gamaldags fyrirtækjamerki og svo vinir hans og kunningjar. En það sem skýtur einna mest upp kollinum þegar farið er yfir instagram- og tumblr-síður Kjartans er einkennismerki Olís.

Kjartan segir að áhugi hans á olíufélaginu hafi byrjað þegar hann fylgdist með miðlum eins og sjávarfréttum. Þar tók hann eftir að einn útgerðarmaður frá Vestfjörðum var alltaf með Olísderhúfu á öllum myndum. „Mér fannst það mjög heillandi og langaði til að líta þannig út. Þá mundi eftir að hafa fengið gefins Olís-derhúfu sem krakki, gróf hana upp og byrjaði að ganga með hana. Byrjaði síðan að leita að fleirum, róta í nytjamörkuðum og svona.“ Hann hefur þó aldrei verið styrktur af fyrirtækinu og segist ánægður með það. „Þá get ég gert það sem ég vil. Tekið kannski mynd af Olís merki sem er rifið og tætt, þarf ekki endilega að halda uppi neinni glæstri ímynd.“

Kjartan segir að þýski ljósmyndarinn Wolfgang Tillmans hafi einnig haft mikil áhrif á sig en hann er þekktur fyrir athugult auga sitt og afgerandi stíl. Líkt og Kjartan Hreinsson þá er Tillmans með einkennandi stíl sem þó er erfitt að lýsa. 

Kjartan segir ljósmyndir sínar persónulegar og þær séu aldrei planaðar langt fram í tímann. Hann gengur hins vegar alltaf um með myndavél til að geta smellt af þegar eitthvað grípur augað. Hann setur mikið af myndum á samfélagsmiðla og þegar hann byrjaði að taka ljósmyndir setti hann þær á miðla eins og flickr og photologo. „Mörgum af mínum bestu vinum í dag kynntist ég í gegnum þessa miðla. Ég hef í raun alltaf verið á samfélagsmiðlum með mína ljósmyndun,“ segir Kjartan að lokum, en allar myndir í þessari færslu eru fengnar af instagram- og tumblr-síðum Kjartans.

Kjartan Hreinsson var gestur Lestarinnar á Rás 1 í dag. Við ræddum þjálfun augans, Olís, áhrifavalda, bryggjurúnta og einn af áhrifavöldum hans; ljósmyndarann Wolfgang Tillmans.

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Mynd með færslu
Davíð Roach Gunnarsson
vefritstjórn
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi