Talinn tengjast hryðjuverkunum í París

18.01.2016 - 17:12
epa05024027 Armed French Police patrols near the Saint Antoine hospital in Paris, France, 14 November 2015. At least 149 people have been killed in a series of attacks in Paris on 13 November, according to French officials.  EPA/LAURENT DUBRULE
 Mynd: EPA
Lögregla í Marokkó hefur belgískan ríkisborgara í haldi, sem talið er að hafi verið í nánum tengslum við hópinn sem framdi hryðjuverkin í París í nóvember.

Í yfirlýsingu sem innanríkisráðuneytið í Rabat sendi frá sér í dag segir að maðurinn hafi verið tekinn höndum á föstudag í hafnarborginni Al-Muhammadiyah, skammt frá borginni Casablanca. Hann er sagður hafa farið til Sýrlands með einum hryðjuverkamannanna. Þar gekk hann fyrst til liðs við samtökin Al-Nusra Front, sem eru hluti af Al-kaída hryðjuverkanetinu. Síðar söðlaði hann um og gekk í vígasveitirnar sem kenna sig við íslamskt ríki. Þær lýstu hryðjuverkunum í París á hendur sér.

Áður en hinn handtekni kom til Marokkós ferðaðist hann um Tyrkland, Þýskaland, Belgíu og Holland, þaðan sem hann hélt til Marokkós. Að sögn yfirvalda í Rabat er hann af marokkóskum ættum.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV