Taka sýni í dag vegna mengunar

19.05.2017 - 10:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tekin verða sýni úr jarðvegi á svæði ofan Iðavalla í Reykjanesbæ í dag. Við gatnagerð kom í ljós tjara í jarðvegi og er verið að kanna hvort þar séu þungmálmar og þrávirk efni. Þarna voru áður ruslahaugar á vegum bandaríska hersins. Fyrst var greint frá málinu í Víkurfréttum í gær.

Að sögn Guðlaugs H. Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs hjá Reykjanesbæ, var vitað að á svæðinu gæti leynst járnarusl í jarðvegi. Það hafi komið á óvart að þar væri tjara. „Þarna eru líka plastpokar, líklega utan af jarðúrgangi,“ segir Guðlaugur.

Úrgangsins varð vart þegar verið var að vinna við gatnagerð á verslunar- og þjónustusvæði við Flugvelli. Tíu lóðum hefur verið úthlutað, flestum til reksturs í tengslum við bíla. Áætlað var að framkvæmdir við byggingar myndu hefjast um mitt sumar eða í haust. Framkvæmdir á svæðinu hafa verið stöðvaðar. Ekki er ljóst hversu lengi.

Er í skoðun að bæjarfélagið sækist eftir skaðabótum frá bandarískum yfirvöldum? „Við erum að skoða hver staða okkar er. Til er leigusamningur um svæðið frá árinu 1992 sem skrifað var undir á vegum Keflavíkurkaupstaðar,“ segir Guðlaugur.

Uppbygging á íbúðahverfi er að hefjast í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ, sem áður var kallað Nikel-svæði. Það er í næsta nágrenni við Iðavelli. Þar voru áður tankar á vegum bandaríska hersins. Guðlaugur segir svæðið hafa verið hreinsað á sínum tíma á vegum Bandaríkjahers og því ekki grunur um að þar finnist viðlíka mengun.