Tæplega 50% meiri sala á lambakjöti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sala á lambakjöti innanlands í ágúst var 48 prósentum meiri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt nýjum tölum frá Matvælastofnun. Þá var útflutningur lambakjöts 131 prósenti meiri í ágúst á þessu ári en í fyrra. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

723 tonn af lambakjöti voru seld innanlands í ágúst og 225 tonn voru flutt út. Í Morgunblaðinu er haft eftir Steinþóri Skúlasyni, forstjóra SS, að markaðsátak erlendis hafi borið árangur. Síðan það hófst í vor hafi 800 tonn verið flutt út. Steinþór segir aukna eftirspurn ferðamanna eftir kjötinu eiga þátt í aukinni sölu innanlands.

Yfir 300 milljónum var varið í markaðsátak erlendis. Fjármagnið kom frá ríkinu en einnig var ónotuðu fé úr búvörusamningi varið í það, sem og framlagi sláturleyfishafa.