„Tæknilegt undur“ á miðju Eurovision sviðinu

17.04.2017 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Eurovison  -  YouTube
Eurovision höllin í Kænugarði er óðum að taka á sig mynd og fullyrða aðstandendur að hin svokallaða „ljósakróna“, sem staðsett verður yfir miðju sviðinu, muni vekja mikla athygli. Undirbúningur stendur nú sem hæst fyrir Eurovision, sem fram fer dagana 9.-13. maí næstkomandi.

Um 800 manns vinna nú við að leggja lokahönd á undirbúning hallarinnar en æfingar hefjast eftir rétt um tvær vikur. Á sviðinu verða einir 1.000 fermetrar af LED skjáum, 258 hátalarar, 212 hljóðnemar og 61 kílómetri af snúrum fyrir ljósin ein og sér. Búnaðurinn sem notaður verður myndi fylla 230 flutningabíla en 220 manns munu starfa að útsendingu keppninnar.

Christer Björkman, sem stýrir framleiðslu Eurovision í ár, telur að „ljósakrónan“ (e. the chandelier), sem hangir yfir miðju sviðinu, verði eitt af því minnisstæðasta við keppnina. „Þetta er tæknilegt undur, þetta eru sex eða sjö lög af mismunandi tækni, sem saman líta út eins og ljósakróna. Við köllum þetta svissneska vasahnífinn, því það hefur svo marga möguleika og mun hafa mikil áhrif á atriðin og sýninguna“, segir Björkman, en útskýrir þó ekki nánar hvað það er nákvæmlega sem ljósakrónan góða gerir. Það kemur eflaust betur í ljós í næsta mánuði.