Tækifæri til að efla raforkumál Vestfirðinga

22.02.2016 - 13:25
Rafmagnslínur.
Myndin er úr safni.  Mynd: Robert Linder  -  RGBStock
Tækifæri til að efla raforkuflutning á Vestfjörðum felst í því að leiða rafmagn frá nýrri virkjun í Hvalá beint í Ísafjarðardjúp. Þannig má ljúka hringtengingu Vestfjarða og færa raforkumál á Vestfjörðum til nútímans. Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum er í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Næsti afhendingarstaður raforku frá fyrirhugaðri virkjun er í Geiradal í Reykhólasveit. Framkvæmdastjóri Vesturverks, sem hefur skoðað virkjunarmöguleika Hvalár, hefur látið þau orð falla að virkjunin standi og falli með því hvert rafmagnið verður leitt. Það sé of kostnaðarsamt að leiða rafmagnið til næstu afhendingarstaða, Geiradals og Mjólkár. Sigurður Hreinsson, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, segir að með því að leiða rafmagnið yfir í Reykhólasveit sé gengið framhjá tækifærinu til að efla raforkukerfið á Vestfjörðum. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sendi nýlega frá sér ályktun þar sem skorað er á Landsnet, ríkisstjórn Íslands, Alþingi og Orkustofnun að tryggja að bætt verði við afhendingarstað fyrir raforkuna í Ísafjarðardjúpi. Afhendingarstaðurinn gæti þá einnig þjónað nokkrum smærri virkjunum sem eru fyrirhugaðar í Ísafjarðardjúpi. Frá nýjum afhendingarstað, sem gæti þá verið í nágrenni við Nauteyri, má flytja rafmagn út eftir Ísafjarðardjúpi og tengja við Mjólkárlínu sem flytur rafmagn til norðanverðra Vestfjarða. Með slíkri lagningu má ganga frá hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum og um leið færa raforkumál á Vestfjörðum til nútímans. „Ef menn sjá sér ekki hag í því að bæta kerfið á Vestfjörðum, jafnhliða þessari framkvæmd, þá sé ég ekki að menn fari í það seinna. Mér finnst það borðliggjandi að nýta þetta tækifæri,“ segir Sigurður Hreinsson.

Mynd með færslu
 Mynd: Google maps
Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV