Tækifæri til að breyta heilbrigðiskerfinu

11.01.2016 - 09:05
Birgir Jakobsson, landlæknir, segir að hinir ýmsu hlutar heilbrigðiskerfisins spili ekki nægilega vel saman. Birgir, sem var forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi 2007 til 2014, hefur að undanförnu meðal annars gagnrýnt það fyrirkomulag sem viðgengst á Landspítalnum háskólasjúkrahúsi, þar sem sérfræðilæknar gegna hlutastarfi samhliða því að reka stofur út í bæ. Hann segir að þetta hljóti að skapa erfiðleika við að skipuleggja þjónustuna og að hún verði ekki skilvirk fyrir vikið.

Í ítarlegu viðtali um uppbyggingu heilbrigðiskerfsins í Helgarútgáfunni á Rás 2 á sunnudag lýsti Birgir stöðnun í kerfinu. „Það sem hefur einkennt kerfið síðustu áratugi er að við gerum stöðugt meira af því sama gamla. Ég hef af því áhyggjur að kostnaðurinn við heilbrigðiskerfið eykst en ég get ekki séð að gæði þjónustunnar séu að batna. Og í sumum tilvikum finnst mér nánast að gæðin versni.“

Birgir segist vilja benda á þetta núna og hefja þessa umræðu því að tækifærið til að snúa þessari þróun við og breyta ýmsum þáttum í kerfinu. „Þetta tækifæri felst í byggingu nýs Landspítala háskólasjúkrahúss í Vatnsmýri,“ sagði Birgir. „Ef við missum af því tækifæri þá höldum við árfram að eyða meiru og meiru og halda áfram á þessari röngu braut. Stjórnvöld þessa lands þurfa að átta sig á því að nú er tækifærið.“

Birgir segir að enn sé töluvert verk eftir í að ná þeim markmiðum sem menn hafi sett sér með nýju greiðslukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sú kostnaðargreining í kerfinu sem stefnt sé að hafi ekki klárast.

Birgir hvetur til að umræðunni um staðsetningu nýja spítalans ljúki núna. „Einhvers staðar verður að setja niður fótinn og bara byrja.“ Í því sambandi undirstrikaði Birgir mikilvægi þess vísindalega klasasamstarfs sem sjúkrahúsið yrði miðpunkturinn í. Hann sagði að samlegðaráhrifin af þessu vísinda og tækniumhverfi til framtíðar yrðu verulegur þáttur í að fjármagna háskólasjúkrahúsið.

 

Hallgrímur Thorsteinsson
dagskrárgerðarmaður
Helgarútgáfan