Sýslumaður tekur undir að biðin sé óboðleg

11.08.2016 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir að þyrfti hann sjálfur að láta þinglýsa skjali þætti honum hinn langi afgreiðslutími ábyggilega ekki boðlegur. Í ár stefnir í að 90 þúsund skjölum verði þinglýst, 20 þúsund fleiri skjölum en í fyrra.

Þeir sem þurfa að láta þinglýsa skjölum hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þurfa að bíða í þrjár vikur, margfalt lengur en þeir sem þurfa að láta þinglýsa skjölum hjá öðrum sýslumannsembættum. Kjartan Hallgeisson formaður Félags fasteignasala sagði í sjónvarpsfréttum í gær, 10. ágúst, að vegna þessa lenti fólk í aukafjárútlátum, gæti ekki greitt á réttum tíma og að tafir gætu orðið á afhendingu fasteigna. Hann sagði að þetta væri ekki boðlegt þjónustustig. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Halldórsson sýslumaður

Þórólfur Halldórsson sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu tekur aðspurður að nokkru undir þetta: „Finnst þér þetta boðlegt? Ja, ef ég væri í þeirri stöðu að bíða eftir skjali úr þinglýsingu þá fyndist mér þetta ábyggilega ekki boðlegt. Það er alveg á hreinu að það er ekki markmið að þetta taki tvær vikur eða rúmlega það.“

Innanríkisráðuneytinu er kunnugt um ástandið. Þórólfur segir Alþingi móta ramma með fjálögum en hugsanlega þyrfti að endurskoða hann með tilliti til málafjölda. „Það er alla vega ljóst að það eru um það bil 2/3 hlutar allra skjala, sem þinglýst er á landinu, eru þinglýst hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að hin embættin átta eru þá með einn þriðja hluta skjalanna.“ Fjárveitingar til embættanna eru langt frá því í sömu hlutföllum. 

Á höfuðborgarsvæðinu var ekki til fé til þess að ráða í sumarafleysingar, embættið fékk ekki aukagreiðslur vegna margra milljóna króna fjárútláta við flutning embættisins á einn stað í haust og ekki hefur verið bætt við starfsfólki vegna aukins málafjölda. Fyrstu sex mánuði ársins komu tæplega 30% fleiri skjöl í þinglýsingu en sama tíma í fyrra. Og þetta eru ekki nokkrir tugir eða hundruð skjala. „Ef árið heldur áfram í sama hlutfalli og fyrri hluta, þá gæti það þýtt fjölgun um svona 20 þúsund skjöl, úr svona 70 í 90 þúsund svona um það bil“, segir Þórólfur Halldórsson. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftir að skjölum er skilað þarf fólk að bíða í þrjár vikur þar til þinglýsingu er lokið
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV