Sýrlensku fjölskyldurnar komnar til Akureyrar

19.01.2016 - 21:41
Mynd með færslu
Fjölskyldan við komuna til landsins  Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Fjórar af sýrlensku fjölskyldunum sex sem komu til Íslands síðdegis komu til Akureyrar í kvöld. Fólkið hafði þá verið á ferð í um sólarhring. Norðan heiða var beðið þeirra með mikilli eftirvæntingu en síðustu vikur og mánuðir hafa farið að undirbúa komu flóttafólksins.

„Það er vissulega spenna í loftinu og tilhlökkun,“ sagði Sigurður Ólafsson, formaður Akureyrardeildar Rauða krossins, nokkrum mínútum áður en flugvélin sem flutti fólkið norður lenti. Undirbúningnum fyrir komu fólksins er lokið. „Það small allt á síðustu klukkutímunum í dag. Við fórum síðasta hringinn í íbúðirnar fyrir svona klukkutíma síðan.“

Flugvélin sem flutti fólkið á nýjar heimaslóðir lenti á Akureyrarflugvelli klukkan átta í kvöld. Flóttamennirnir gengu síðastir frá borði og inn í komusalinn þar sem fulltrúar Rauða krossins og Akureyrarbæjar tóku á móti þeim.

Eftir rúmlega sólarhrings ferðalag var þreytan farin að segja til sín hjá mörgum en fólk var þó upplitsdjarft og brosmilt. Faðiririnn í níu manna fjölskyldu þakkaði fyrir mótttökurnar. Það fór þó ekki á milli mála að sumir voru farnir að sjá rúmið sitt í hillingum. Lítill drengur sofnaði í sæti á flugvellinum meðan hann beið þess að haldið yrði áfram.

Frá flugvellinum lá leiðin í húsnæði Rauða krossins þar sem boðið var upp á næringu. Því næst verður því ekið að nýjum heimilum sínum sem bíða fullbúin. „Það eru reyndar komnar stuðningsfjölskyldurnar í íbúðirnar sem taka á móti þeim í íbúðunum,“ sagði Sigurður í kvöld. „Þannig að það er búið að kveikja ljósin og allt klárt í íbúðunum þegar þau koma. Þetta verður vonandi bara notaleg heimkoma fyrir þau.“