Sýrlendingar ráði sjálfir örlögum sínum

12.01.2016 - 17:52
epa05079203 Russian President Vladimir Putin attends a State Council meeting on improving the general education system in Russia, in the Moscow Kremlin, Russia, 23 December 2015.  EPA/MAXIM SHIPENKOV / POOL
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.  Mynd: EPA  -  EPA POOL
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir það mikilvægt að Sýrlendingar fái sjálfir að ákveða örlög sín, en fyrsta skrefið að því að binda enda á stríðið í landinu sé að leggja drög að nýrri stjórnarskrá. Á grundvelli nýrrar stjórnarskrár verði svo að efna til þing- og forsetakosninga í Sýrlandi.

Pútín sagði í viðtali við þýska blaðið Bild að þetta yrði erfitt og deilur Sádi-Araba og Írana kynnu að torvelda friðarumleitanir í Sýrlandi. Pútín gaf í skyn að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, gæti fengið hæli í Rússlandi, en of snemmt væri að ræða slíkar hugmyndir. Fyrst yrðu kosningar að fara fram í Sýrlandi.

Hann benti hins vegar á að Rússar hefðu veitt bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden skjól sem hefði verið mun erfiðara og flóknara mál en ef Assad fengi þar hæli.

Pútín vék einnig í viðtalinu að þrýstingi Bandaríkjamanna og Frakka að Rússar einbeittu sér að árásum gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Hann sagði að Rússar veittu ýmsum samtökum uppreisnarmanna stuðning í baráttu þeirra gegn Íslamska ríkinu og samræmdu aðgerðir með þeim.

Rússlandsforseti fjallaði einnig um deiluna við Tyrki og sagði viðbrögð stjórnvalda í Ankara hafa verið undarleg eftir að Tyrkir skutu niður rússneska þotu við landamæri Sýrlands. Þau hefðu beðið Atlantshafsbandalagið um vernd í stað þess að útskýra málið fyrir stjórnvöldum í Moskvu.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV