Sýrlandsstjórn kærir Tyrki til öryggisráðsins

15.02.2016 - 04:52
epa05147823 A Turkish gendarme border station is seen near Turkish-Syria border in Kilis city, Turkey, 07 February 2016. A Turkish government spokesman in the border province of Kilis was quoted as saying on 07 February his country was not yet planning to
Tyrknesk varðstöð á landamærum Tyrklands og Sýrlands.  Mynd: EPA
Sýrlandsstjórn fordæmir árásir Tyrkja á bækistöðvar sýrlenskra Kúrda og stjórnarhersins í Norður-Sýrlandi og hefur sent formlegt erindi til framkvæmdastjóra og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vegna þeirra. Kallað er eftir skjótum viðbrögðum öryggisráðsins vegna þessa brots gegn fullveldi Sýrlands. Í bréfi stjórnarinnar segir að stórskotaliðsárásir Tyrkja á sýrlenskt landsvæði undanfarna tvo daga jafngildi beinum stuðningi við vopnaðar sveitir hryðjuverkamanna, með tengsl við al-Kaída.

Fullyrt er að Tyrkir hafi leyft um 100 byssumönnum, annað hvort „tyrkneskum hermönnum eða tyrkneskum málaliðum,“ að aka 12 pallbílum, sem búnir voru stórum vélbyssum, óhindrað yfir landamærin og inn í Sýrland, þar sem þeir hafi ráðist á bæði Kúrda og sveitir stjórnarhersins, en einnig á fjögur þorp þar sem enginn var fyrir nema óbreyttir borgarar.

Árásir Tyrkja, segir í erindi Sýrlandsstjórnar, séu augljóslega viðbrögð við framsókn sýrlenska hersins í norðurhluta Aleppo-héraðs og framhald á stuðningi þeirra við ýmis al-Kaída tengd hryðjuverkasamtök. Áskilur Sýrlandsstjórn sér allan rétt til að bregðast við þessum alvarlegu glæpum og árásum Tyrkja með viðeigandi hætti og af fullri hörku. Hún gerir jafnframt þá kröfu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, að það geri sitt til að binda endi á glæpi Tyrklandsstjórnar gegn sýrlensku þjóðinni.

Tyrkir saka sýrlenska Kúrda um náin tengsl við vopnaðan arm hins bannaða Verkamannaflokk Kúrda í Tyrklandi, PKK, og hafa krafist þess að þeir yfirgefi Azaz og nágrenni, nærri tyrknesku landamærunum, án tafar.

Kúrdarnir gera lítið með þá kröfu, og benda á að ef þeir hopi muni íslamistar, að öllum líkindum úr röðum Íslamska ríkisins, fylla þeirra skarð. Vesturveldin virðast sömu skoðunar. Frakkar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og fleiri leggja hart að Tyrkjum að láta af árásum sínum á sýrlenska Kúrda, sem Vesturveldin telja öfluga og mikilvæga bandamenn í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. 

Heimkynni Kúrda eru í landamærahéruðum Tyrklands, Sýrlands og Íraks. Tyrklandsstjórn á í stríði við aðskilnaðarsinna meðal tyrkneskra Kúrda, sem berjast á vegum PKK. Þá hafa stjórnvöld í Ankara löngum litið sýrlenska Kúrda hornauga og verið þeim heldur fjandsamleg en hitt. Það á bæði við um Lýðræðislega samstöðuflokkinn, sem skilgreinir sig sem systurflokk PKK, og ekki síður Þjóðvarðssveitirnar sem eru honum tengdar. Nú hefur sá fjandskapur þróast út í vopnuð átök. Tyrkir hafa hins vegar átt vinsamleg samskipti og samstarf við Kúrda í Írak, jafnt við stjórnmálahreyfingar þeirra sem vopnaðar sveitir. 

Tyrklandsstjórn og Kúrdar í Tyrklandi, Sýrlandi og Írak eiga svo öll sameiginlegan, yfirlýstan óvin í Íslamska ríkinu.