Sýna beinagrind af stærstu skepnu í heimi

11.03.2016 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Björgvin Kolbeinsson
Beinagrind af steypireyðinni sem rak hér á land árið 2010 er nú tilbúin til sýningar hjá Hvalasafninu á Húsavík. Aðeins eru að hámarki tíu beinargrindur af þessari stærstu núlifandi skepnu jarðarinnar til sýnis í heiminum.

Það er tæplega hálft ár liðið frá því beinin voru flutt til Húsavíkur. Hvalasafnið hefur verið lokað síðan vegna breytinga sem þurfti að gera til að koma beinunum fyrir. Því er nú lokið, safnið verður opnað á morgun og sýning á steypireyðinni þar með.

Góð tilfinning að geta loks sýnt beinin

„Þetta er náttúrulega svakalega góð tilfinning. Þetta er búið að vera langt ferli. Bæði að sækja um og ekki síst að koma upp sýningunni hérna,“ segir Jan Aksel Harder Klitgaard, framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík. Og það er ótrúleg upplifun að standa við beinagrind af stærstu skepnu sem nú lifir á jörðinni. „Og bara að standa hérna við hliðina á rifbeinunum er sem eru tvöfalt hærri en ég. Já þetta er magnað,“ segir Jan.

Varðveitt á Húsavík næstu átta árin

Og á sýningunni er eins og komið sé að hvalreka. Beinin liggja í sendinni fjöru og hvalurinn er á bakinu. Beinin verða varðveitt á Hvalasafninu næstu átta ár samkvæmt sérstökum samningi við Náttúrufræðistofnun. Safnið ber allan kostnað af flutningi beinanna norður og uppsetningunni þar og Jan áætlar að kostnaðurinn sé á bilinu 10 til 12 milljónir króna, auk tekjutapsins af því að loka safninu í sex mánuði.

Að hámarki tíu steypireyðargrindur sýndar í heiminum

„Það eru hámark tíu steypireyðargrindur sýndar í heiminum og ein af þeim er hérna á Húsavík. Það er náttúrulega mjög sérstakt og verður mjög mikið aðdráttarafl fyrir safnið að fá fólk til að koma hingað inn,“ segir Jan.