Svört vinna þrífst best í vaxtargreinum

22.02.2016 - 12:06
„Þetta segir okkur að við erum hluti af hnattvæddum heimi, þar sem brotamenn eru tilbúnir að reyna margt til þess að afla sér tekna og sækja sér gróða“, sagði Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, á Morgunvaktinni á Rás 1 í tilefni rannsóknar á vinnumansali í Vík í Mýrdal. Alþýðusambandið er að hrinda af stað átakinu „Einn réttur - Ekkert svindl“, sem beint er gegn svartri atvinnustarfsemi.

Halldór Grönvold lýsti því á Morgunvaktinni að slík brot væru algengari í sumum hópum fólks og starfsgreinum en öðrum. „Flest dæmin sem við sjáum eru úr ferðaþjónustu, annars vegar, og byggingaiðnaði og mannvirkjagerð, hinsvegar. Það er áhyggjuefni, því þetta eru helstu vaxtargreinar í íslensku atvinnulífi. Talið er að hér hafi orðið til 5.500 ný störf á síðustu misserum og þau verði eitthvað á níunda þúsund á næstu árum. Og þau eru meira og minna í þessum greinum. Það er líka áhyggjuefni að það eru tilteknir hópar sem eru lenda frekar í þessu en aðrir: útlendingar og ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Þetta eru þeir hópar sem eru veikir fyrir og þekkja illa réttindi sín“, segir Halldór Grönvold.

Alþýðusamband Íslands fagnar í næsta mánuði 100 afmæli sínu. Meðal þess sem áhersla verður lögð á á afmælisárinu er barátta gegn ólöglegri atvinnustarfsemi, ekki síst með heimsóknum á vinnustaði. „Við erum að setja af stað verkefnið Einn réttur – Ekkert svindl, sem miðar að því að allir sem séu hér á vinnumarkaði eigi að njóta þeirra réttinda sem þar gilda og engum atvinnurekanda eigi að líðast að svindla á þeim. Við áttum okkur á því að öflugasta verkfæri okkar er vinnustaðaeftirlit og heimsóknir. Þess vegna erum við að efla þann þátt í starfi okkar aðildarfélaga“. Í þessum vinnustaðaheimsóknum er deilt upplýsingum til vinnandi fólks um þau réttindi sem gilda í landinu, aflað upplýsinga um aðbúnað og húsakynni – og gripið inn í ef í ljós kemur að lögum og samningum er ekki fylgt. En í þessari þenslu sem nú er reynir mjög á þetta. Halldór segir að þess vegna sé mikilvægt að samtök atvinnurekenda taki við sér og berjist gegn þessari brotastarfsemi, sem vinni gegn hagsmunum samfélagsins. Þetta séu sameiginlegir hagsmunir verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og samfélagsins alls. „Við vildum gjarnan að samtök atvinnurekenda kæmu að þessu með virkari hætti en þau hafa gert. En við trúum því að úr því verði bætt“, segir Halldór Grönvold. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi