Svona unnu Loreen og Sandra Kim Eurovision

20.02.2016 - 13:19
Það skýrist í kvöld hvaða lag verður framlag Íslands í Eurovision - bein útsending í Sjónvarpinu frá Laugardalshöll hefst klukkan átta en meðal þeirra sem koma fram á úrslitakvöldinu er sænska söngkonan Loreen sem vann Eurovision með laginu Euphoria árið 2012 og hin belgíska Sandra Kim - hún vann fyrstu keppnina sem Íslendingar tóku þátt í árið 1986.

Eins og áður eru það atkvæði úr símakosningu og atkvæði dómnefndar sem ráða því hvaða lag verður fyrir valinu - að þessu sinni verður dómnefndin skipuð 18 fagmönnum úr öllum sex kjördæmum landsins. 

Árið sem Loreen vann var framlag Íslands Never Forget eftir Gretu Salóme sem hún flutti sjálf ásamt Jónsa. Lagið komst upp úr milliriðli - fékk 46 stig og hafnaði í 20. sæti. 

Árið 1986 - þegar Sandra Kim vann með lagið J'aime la vie - var Gleðibankinn framlag Íslands.  Lagið hlaut 19 stig og hafnaði í hinu alræmda 16. sæti.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV