Svona erum við féflett, segir þingmaður

09.02.2016 - 11:12
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Almenningi blöskrar gjaldtaka bankanna, segir Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Sterkan vilja og frjótt ímyndunarafl þurfi til að finna upp öll þau gjöld sem bankarnir leggi á neytendur. Neytendasamtökin birtu í fyrra skýrslu þar sem tekið er í sama streng.

Þetta segir Karl í nýrri bloggfærslu sem ber yfirskriftina „Svona erum við féflett“. 

Karl segir banka og önnur fjármálafyrirtæki rukka almenning um tugi milljarða í formi alls kyns þjónustugjalda. Hann fullyrðir að þessi þjónustugjöld fari sífellt hækkandi. Síðan segir Karl: „Það er ljóst að það þarf bæði frjótt ímyndunarafl og sterkan vilja til að finna upp öll þau gjöld sem fyrir hendi eru.“ 

Þá setur Karl upp lista yfir ýmis gjöld bankanna og segir listann ekki tæmandi. Nefnir hann t.d. tilkynningargjald, seðilgjald, úttektargjald, úrvinnslugjald, umsýslugjald, umsjón, þóknun, hraðbankagjald, vörsluþóknun og svargjald bankaþjónustu svo fá ein af lista Karls séu nefnd.

Að lokum spyr Karl: „Er nema von að fólki blöskri og sé búið að fá nóg? Og er nema von að uppi sé krafa um nýtt og heiðarlegra bankakerfi?“

Neytendasamtökin birtu í fyrra skýrslu þar sem rýnt er í gjaldskrá bankanna. Kvartanir vegna hækkana á gjöldum þeirra sem og nýjum þjónustugjöldum berast reglulega til samtakanna. Kemur fram í umfjöllun Neytendasamtakanna að verðskrár bankanna séu margar blaðsíður og gjaldaliðir skipti hundruðum. Þá kemur fram í skýrslu samtakanna að alltof mörg gjöld bankanna hafi hækkað langt umfram vísitölu neysluverðs síðustu ár.

 

 

Mynd með færslu
Lára Ómarsdóttir