Svona brugðust Norðmenn við þvingunum Rússa

Mynd með færslu
 Mynd: ALEXEI DRUGINYN / RIA NOVOSTI /  -  EPA. Samsett mynd.
Í svari frá ráðuneyti viðskipta, iðnaðar og sjávarútvegs í Noregi kemur fram að brugðist hafi verið við þvingunaraðgerðum Rússa með þrennum hætti. Með tilfærslu aflaheimilda milli ára, tilfærslu fjármagns innan norska Sjávarafurðaráðsins og seinkun slátrunar hjá eldisfyrirtækjum. Flestar aðgerðirnar voru tímabundnar til eins árs.

Rússar settu innflutningsbann á norskar sjávarafurðir þann 14. ágúst árið 2014. Samtímis voru settar ýmiss konar innflutningshömlur á önnur ríki sem stutt höfðu viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna hernaðaraðgerða í Úkraínu. Þrátt fyrir að styðja aðgerðirnar var Ísland ekki á bannlistanum.

Sama dag og bannið var sett á komu stjórnvöld á samtali við norskan sjávarútveg en bannið gerði fá boð á undan sér. Eftir fundi sem áttu sér stað sama dag hafði verið búinn til listi yfir mikilvægustu mótvægisaðgerðir sem lesa má hér.

Þær voru, samkvæmt svari ráðuneytisins, að auka markaðssetningu norska Sjávarafurðaráðsins (NSC) á laxi, silungi og uppsjávarfiski. Engin slík stofnun er til hér á landi. Ákveðið hlutfall útflutningsverðmæta fer til ráðsins. Hversu mikið fer síðan í rannsóknir og markaðssetningu hverrar tegundar veltur á því hversu háar fjárhæðir berast ráðinu fyrir þá tegund. Því var ráðinu heimilt að flytja fjármagn milli eigin sjóða til að bregðast við þörf fyrir aukna markaðssetningu þessara tegunda. Ráðið býr yfir umfangsmikilli markaðsþekkingu og aðstoðar norsk sjávarútvegsfyrirtæki við markaðsmál og við að kynna norskar afurðir.

Strax var farið í að styrkja samskipti og regluverk gagnvart Úkraínu og skipuð tvíhliða nefnd sem fjallaði um viðskipta-, iðnaðar- og efnahagslegt samstarf.

Samkvæmt svari ráðuneytisins voru mikilvægustu aðgerðirnar þær sem snéru að flutningi kvóta milli veiðiára og aukið svigrúm eldisfyrirtækja til að fresta slátrun. Þær aðgerðir voru endanlega kynntar 21. ágúst, viku eftir að bannið skall á. Nánar má lesa um þær aðgerðir hér.

Síðar voru heimildir sem náðu til silungs framlengdar þar sem bannið kom sérlega illa við þau fyrirtæki. Auk þess sem frekari erfiðleikar bættust við. Um framlengingu þeirra heimilda má lesa hér.

Í svari ráðuneytisins segir að Rússland hafi verið næststærsti markaður norskra sjávarútvegsfyrirtækja þegar bannið skall á. Þangað voru fluttar afurðir að andvirði 800 milljóna evra árið 2013, á þáverandi gengi. Það gerir um 113 milljarða króna á núverandi gengi.

Þrátt fyrir bann Rússa setti Noregur útflutningsmet í sjávarafurðum bæði árið 2014 og 2015. Þar er að mestu að þakka mikilli velgengni í sölu á laxi, sem segja má að lúti jafnvel öðrum markaðslögmálum en sjávarafurðir almennt. Aðgreining vörunnar eigi meira skylt við kjúkling eða nautakjöt frekar en til dæmis hinar fjölmörgu hvítfisktegundir.

Í svari ráðuneytisins segir að þrátt fyrir velgengnina sé ekki þar með sagt að bannið hafi ekki haft veruleg áhrif. Útflutningsverðmæti hefðu verið hærri ef aðgengi að Rússlandsmarkaði væri enn til staðar. Veiking norsku krónunnar, vegna hríðlækkandi olíuverðs, hafi einnig haft gríðarlega jákvæð áhrif á útflutningstekjur norska sjávarútvegsins.

Í nýlegri samantekt utanríkisráðuneytisins, um mat á heildrænum hagsmunum Íslands vegna þvingana Rússa, segir að fljótlega eftir að bannið skall á, 13. ágúst 2015, hafi verið gripið til mótvægisaðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Heimild til að flytja makrílkvóta milli ára hafi verið rýmkuð. Það var gert 25. ágúst 2015. Stjórnvöld stofnuðu einnig samráðshóp um áhrif bannsins en í skýrslu um áhrifin kom fram að tap vegna þess gæti hlaupið á 2-18 milljörðum. Stjórnvöld komu einnig á fundum með Evrópusambandinu um að lækka tolla til að milda höggið hér á landi. Þeir báru ekki árangur. Þá var Byggðastofnun var falið að gera úttekt um áhrif bannsins á þær byggðir sem yrðu verst úti.

Samtök fyrirtækja í Sjávarútvegi hafa ítrekað farið fram á að stuðningi við aðgerðir gegn Rússum verði hætt. Formaður samtakanna segir skýrslu samráðshópsins staðfesta það sem SFS hafi haldið fram um skaðsemi bannsins.

Í samantekt ráðuneytisins er að mestu fjallað um hagsmuni Íslands út frá samstöðu við vestræn ríki og hvaða áhrif það myndi hafa að rjúfa þá samstöðu, sem teldist „…meiriháttar frávik frá utanríkisstefnunni og ábyrgðarhluti sem kallaði, í besta falli, á gagnrýnar spurningar vinaþjóða um vegferð íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamskiptum og orðspor Íslands sem traust bandalagsríki myndi bíða hnekki.“ 

Þá segir einnig; „Hefði Ísland ekki tekið þátt í þeim þvingunaraðgerðum sem gripið hefur verið til gagnvart Rússlandi væri það í fyrsta sinn í sögu íslenska lýðveldisins að landið hefði kosið að fara eigin leiðir og þar með rofið samstöðu vestrænna ríkja í málefnum sem allir eru sammála um að varða grundvallaratriði í öryggismálum Evrópuríkja.“

Í samtali við fréttastofu 8. ágúst 2015 sagði Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, að íslensk stjórnvöld hefðu oftar valið viðskiptahagsmuni fram yfir siðferðileg álitamál í gegnum tíðina