Svínaflensa breiðist út í Rússlandi

19.01.2016 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sautján hafa dáið úr svínaflensu í Rússlandi frá því í síðasta mánuði, þar af fimm í Pétursborg. AFP-fréttastofan hefur eftir heilbrigðisstarfsfólki í borginni að 313 hafi verið lagðir inn á sjúkrahús vegna hennar síðustu tíu daga. Svo virðist sem veiran sé að breiðast út. Í Rostov-héraði í suðurhluta Rússlands eru um 120 á sjúkrahúsi og fjórir eru látnir.

Rússneskar fréttastofur hafa eftir Önnu Popovu landlækni að óhjákvæmilega eigi fleiri eftir að leggjast veikir næsta mánuðinn.

Svínaflensan er af H1N1-stofni, hinum sama og varð til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti yfir heimsfaraldri sumarið 2009. Alls létust þá 18.500 í 214 löndum. Faraldurinn stóð yfir fram í ágúst 2010.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV