„Svigrúm til að taka meira af útgerðinni“

11.01.2017 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚv
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir svigrúm til að taka hærra auðlindagjald af útgerðinni en gæta þurfi þess að leggja ekki of háar álögur á þau fyrirtæki sem ganga verr með styrkingu krónu.  

Leiðtogar stjórnarflokkanna þriggja voru gestir Kastljóssins í kvöld þar sem rætt var um stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þegar spurt var um fjármögnun kosningaloforða eins og uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar.

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra minntist meðal annars á að lækkun skulda og þar af leiðandi vaxtakostnaðar myndi skapa svigrúm í ríkisfjármálum: „Það er talað um kerfisbreytingar sem mögulega geta losað fjármuni hingað og þangað.“ Óttarr var þá spurður hvort hann meinti hærra auðlindagjald. „Til dæmis, já. Það er talað um að koma á grænum sköttum, það er talað um að endurskoða skattkerfi í kringum umhverfismálin og svona hlutir.“

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, var líka spurður hvort auknar álögur yrðu lagðar á sjávarútveginn í formi auðlindagjalda. Hann sagði: „Við erum fyrst og fremst að horfa á það að við náum kerfi sem skilar betur gjaldi til ríkisins sem er í takti við afkomu greinarinnar. Ég sé fyrir mér sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem hafa mesta afkomu að þar sé svigrúm til að skila meiru til ríkisins. En það sem ég er að segja hérna er það er að það á endanum hangir á því að reksturinn haldi áfram að ganga vel. Það er svigrúm til að taka meira af útgerðinni, sérstaklega í tilteknum greinum en við verðum að gæta þess að leggja ekki slíkar byrgðar á útgerðina heilt yfir að þeir sem hafa minna upp úr rekstrinum verði einfaldlega komnir í mínus“

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV