Svifryksmengun oft yfir heilsuverndarmörkum

20.04.2017 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svifryksmengun í Reykjavík hefur ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk það sem af er ári. Mörkin voru rýmkuð með nýrri reglugerð í fyrra. Nú má svifryksmengun fara yfir heilsuverndarmörk 35 sinnum á ári. Áður mátti það aðeins gerast sjö sinnum.

Svifryksmengun getur valdið fólki óþægindum og jafnvel verið hættuleg fyrir þá sem eru með ofnæmi eða alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma. 

Heilsuverndarmörk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring. Í gær mældist svifryk ítrekað yfir 200 míkrógrömm á rúmmetra. Á mánudagsmorgun var mengunin enn meiri - yfir þúsund míkrógrömm á rúmmetra.
Ragnhildur Finnbogadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að hægt að draga úr menguninni með því að sópa göturnar og rykbinda. Þá slíta nagladekk götunum mun hraðar er ónegld auk þess sem dísilbílar valda meiri svifryksmengun en aðrir bílar.

„Þannig að það er ýmislegt hægt að gera, en kannski það einfaldasta sem við getum byrjað á, það er að að rykbinda og sópa oftar,“ segir Ragnhildur.

Reykjavíkurborg byrjaði vorhreinsun 19. mars og er gert ráð fyrir að hún standi í tíu vikur. Götur og gönguleiðir í öllum hverfum borgarinnar eru sópaðar, í ákveðinni forgangsröð. Enn er samt mikil drulla við fjölfarnar götur eins og Miklubraut og Suðurlandsbraut.

Svifryksmengun hefur ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk í ár. Ragnhildur segir að undanfarin ár hafi það gerst um sjö til tuttugu sinnum á ári.

Samkvæmt reglugerð sem sett var árið 2002, mátti svifryk fara yfir heilsuverndarmörk sjö sinnum ári. Reglugerðin var hins vegar felld úr gildi í fyrra, af þáverandi umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur. Hún setti nýja reglugerð sem heimilar að fara megi yfir heilsuverndarmörk vegna svigryks allt að 35 sinnum á ári. Þá má magn svifagna að meðaltali yfir árið vera tvöfalt meira en áður var heimilt: 40 míkrógrömm á rúmmetra, að meðaltali, í stað 20 míkrógrömm áður.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV