Svíar hættir að rannsaka Julian Assange

19.05.2017 - 10:06
epa03515381 WikiLeaks founder Julian Assange delivers a speech from a balcony of the Ecuadorean embassy in London, Britain, 20 December 2012. Assange addressed supporters from the embassy in London, six months after he was granted asylum inside the
 Mynd: EPA
Ákæruvaldið í Svíþjóð er hætt að rannsaka ásakakanir á hendur Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, um að hann hafi nauðgað konu þar í landi fyrir sjö árum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Marianne Ny, ríkissaksóknari í Stokkhólmi sendi frá sér í dag.

Assange hefur alla tíð neitað sök. Hann hefur síðastliðin fimm ár dvalið í sendiráði Ekvadors í Lundúnum til að komast hjá því að Bretar framselji hann til Svíþjóðar. Þar sem rannsókn málsins hefur verið hætt ætti hann að geta farið þaðan frjáls ferða sinna. Breska lögreglan tilkynnti hins vegar fyrir nokkrum mínútum að henni beri skylda til að handtaka Assange stígi hann fæti út fyrir sendiráðið. Handtökuskipun á hendur honum hafi verið gefin út árið 2012 og hún hafi enn ekki verið felldúr gildi.

Julian Assange hefur alla tíð sagst vera þess fullviss að færi hann til Svíþjóðar yrði hann framseldur til Bandaríkjanna. Þar bíða hans réttarhöld fyrir að hafa birt mörg hundruð þúsund leyniskjöl Bandaríkjahers og utanríkisráðuneytisins þar í landi.

Sænskur saksóknari fékk að vera viðstaddur þegar Assange var yfirheyrður um hina meintu nauðgun í nóvember síðastliðnum. Þar ítrekaði hann sakleysi sitt. Kynmökin sem deilt væri um hefðu verið með samþykki beggja.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV