Sveitarstjóri þar sem hann var áður í sveit

04.03.2016 - 16:42
Mynd með færslu
Ólafur Rúnar, til hægri, tekur við starfi sveitarstjóra.  Mynd: Eyjafjarðarsveit
Ólafur Rúnar Ólafsson var í gær ráðinn sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar. Hann tekur við starfinu í vor þegar Karl Frímannsson lætur af starfi að eigin ósk til að vinna að skólamálum. Ólafur Rúnar er fertugur hæstaréttarlögmaður sem hefur sinnt verkefnum fyrir Eyjafjarðarsveit og fleiri sveitarfélög. Hann er formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju og situr í yfirkjörstjórn Norðurlands eystra auk þess að kenna félagarétt við Háskólann á Akureyri.

Ólafur Rúnar segir á vef Eyjafjarðarsveitar að hann hafi viljað opna sjóndeildarhringinn og opna nýjar dyr eftir þrettán ára störf í lögmennsku. „Erfitt er að sjá skemmtilegra tækifæri til þess en einmitt í Eyjafjarðarsveit, þar sem ég var átta sumur í sveit sem barn og unglingur.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV