Sveitarfélögin lækki byggingarkostnað

25.02.2016 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félagsmálaráðherra segir að sveitarfélögin geti gert margt til þess að lækka byggingarkostnað. Ráðherra ætlar að ræða við sveitarfélögin um þetta á næstu dögum. Fjölga þurfi íbúðum.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra benti á í ræðu sinni á ráðstefnu um fasteignamarkaðinn sem hófst í morgun að sveitarfélögin taka margs konar gjald af þeim sem byggja. Eygló segir að ríkisstjórnin hafi undir stjórn umhverfisráðherra unnið að breytingum á byggingareglugerðinni með það að markmiði að lækka byggingakostnað.

„Það er mjög margt sem sveitarfélög geta gert til að lækka kostnað. Ég fór í gegnum margvísleg gjöld sem eru tekin ef einhverjum dettur í hug að fara að byggja sjálfur. Og það er mikil hugmyndavinna á bak við þessa gjaldtöku. Þetta er það sem ég held að sé mikilvægt núna. Ég mun núna á morgum og eftir helgi funda með stærstu sveitarfélögunum og stjórn sambandsins,“ segir Eygló og bætir við að ríki og sveitarfélög þurfi í sameiningu að finna leið til að lækka byggingarkostnað og bætir við: „Það er greinilegt að þetta er mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin þannig að ef það er eitthvað sem við getum gert til að fjölga lóðum, til þess að einfalda kröfurnar, í kjarnanum er það: hvað getum við gert saman til þess að fjölga íbúðum?“

Fjögur húsnæðisfrumvörp Eyglóar bíða afgreiðslu Alþingis. „Ég er að vonast til þess að þetta verði samþykkt á næstu vikum það er mjög mikilvægt. Alþingi er þegar búið að setja pening i þetta, þetta er hluti af kjarasamningum,“ segir Eygló.

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir